Pétur Steinar Jóhannsson er Snæfellsbæingur ársins 2019

Við hátíðlega athöfn í Sjómannagarðinum á þjóðhátíðardaginn hlaut Pétur Steinar Jóhannsson nafnbótina Snæfellsbæingur ársins 2019.

Höfðu sumir á orði að viðeigandi væri að Pétur Steinar tæki við nafnbótinni í Sjómannagarðinum í Ólafsvík, enda hefur hann unnið ötult starf við útgáfu á Sjómannablaðinu til áratuga og lagt á sig óeigingjarna vinnu við endurbætur á Sjómannagarðinum sjálfum.

Það er menningarnefnd Snæfellsbæjar sem hefur veg og vanda af útnefningunni ár hvert, en að þessu sinni óskaði nefndin einnig eftir tilnefningum frá íbúum Snæfellsbæjar. Var það samróma niðurstaða nefndar og íbúa að Pétur Steinar Jóhannsson ætti viðurkenningu skilið fyrir framlag sitt til bæjarins.

Er Pétri hrósað í hvívetna fyrir að skrá sögu sjómennsku hér í Snæfellsbæ og halda henni á lofti. Við óskum Pétri innilega til hamingju með nafnbótina og teljum hann vel að henni kominn.

Ljósmynd: Jóhannes Ólafsson/Steinprent