Pistill bæjarstjóra, 17. apríl 2020

Ágætu íbúar.

Um páskahelgina bárust þær ánægjulegu fréttir að Covid-19 faraldurinn á Íslandi væri í rénun. Í dag föstudaginn 17. apríl er staðan sú að enginn nýr einstaklingur  hefur verið greindur með Covid-19 í Snæfellsbæ og eitt smit hefur greinst frá því að faraldurinn hófst, það eru líka góðar fréttir. Á Vesturlandi eru nú í einangrun 11 og í sóttkví á Vesturlandi eru nú 37.  Hér á Snæfellsnesi hafa greinst smitaðir 6.

Þrátt fyrir að faraldurinn sé í rénun er ljóst er að samkomubannið í núverandi mynd verður til 4. maí en eftir það taka við nýjar og rýmri reglur. Einhverjum höftum verður aflétt og öðrum breytt.  Það er ljóst að íþróttahús og sundlaugar verða áfram lokuð eftir 4. maí og ekki er vitað hvenær gera má ráð fyrir að þau opni aftur.  Hins vegar verða íþróttaæfingar barna og unglinga leyfðar í smærri hópum eftir 4.maí og munu koma frekari leiðbeiningar um það fljótlega.

Rætt er um að slakað verði á heimsóknarbanni á hjúkrunar- og dvalarheimilum en ekki eru komnar reglur/leiðbeiningar um hvernig það verður útfært.  Við munum senda frá okkur tilkynningu þegar þær leiðbeiningar liggja fyrir.

Ég tek undir með þríeykinu Víði, Þórólfi og Ölmu um að aflétting haftanna hefst 4.maí og sá dagur er ekki kominn.  Við verðum að halda áfram að virða þær reglur samkomubanns sem nú eru í gildi. Við þurfum líka að halda áfram að þvo vel hendur, spritta og virða fjarlægðarmörkin. Okkur hefur gengið vel í baráttunni en verkefninu er ekki lokið, við þurfum að halda áfram að standa okkur vel.

Í gær komu fram tilmæli frá Almannavörnum til okkar sveitarfélaganna þar sem við vorum hvött til að brýna foreldra um að börn og ungmenni væru ekki að safnast saman á leiksvæðum en borið hefur á því að t.d. börn hafi verði fjölmenn á sparkvöllunum m.a. hér hjá okkur.  Þetta er  stranglega bannað og afar mikilvægt að foreldrar brýni það fyrir börnum sínum.

Ég veit að þetta er ekki auðvelt, sérstaklega ekki nú þegar vorið er að koma og sólskinsdagar láta sjá sig. En þessi veirufjandi spyr ekki að því og við verðum að finna leiðir til að njóta veðurs og náttúru án þess að hópast saman. Við getum þó glaðst yfir því að þurfa ekki að sæta útgöngubanni eins og fjöldi fólks í öðrum löndum býr við.

Það er reyndar mjög ánægjulegt þessa dagana að sjá sannkallaðan vorboða í öllum þeim mikla fjölda fólks í Snæfellsbæ sem sinnir sinni hreyfingu utanhúss þessa dagana sér til heilsubótar. Það er til mikillar fyrirmyndar enda skiptir hreyfingin og útiveran öllu máli bæði til að viðhalda líkamlegri heilsu en ekki síður og kannski enn frekar þeirri andlegu. Ég hvet okkur því öll til að halda áfram á þessari braut okkur til heilsubótar á skrýtnum tímum

Enn og aftur vil ég ítreka þakkir mínar til alls þess fólks sem hefur lagt á sig mikla vinnu, við erfið skilyrði, til þess að samfélagið okkar geti gengið jafnvel og það gengur.  Það er svo magnað að upplifa þessa tíma og finna samstöðuna og samkenndina í samfélaginu bæði hér í Snæfellsbæ og líka á landinu öllu. Það er líka svo magnað að sjá aðlögunarhæfnina og finna kraftinn og útsjónarsemina hjá fólki í störfum hjá bænum og úti í fyrirtækjunum sem finnur nýjar leiðir þegar aðrar lokast vegna ástandsins.

Við munum komast í gegnum þennan ólgusjó og við gerum það saman. Ég hvet íbúa til að halda áfram að standa saman og standa með okkar fólki. Áhrif faraldursins eru mikil á mörg fyrirtæki í okkar bæjarfélagi eins og annarsstaðar. Það eru því fjölmargir sem búa nú við óvissu, óöryggi og afkomuáhyggjur. Við getum lagt okkar af mörkum með því að versla heima og styðja okkar fólk.

Höldum í gleðina, jákvætt hugarfar skiptir alltaf miklu máli og nú sem aldrei fyrr. Vorið er framundan með öllum sínum töfrum og ég ætla að leyfa mér að trúa því að á eftir fylgi sólríkt og gott sumar. Ég ætla að enda þennan pistil minn í dag á fallegu ljóði um vorið eftir Jónas Hallgrímsson.

Vorið góða, grænt og hlýtt, græðir fjör um dalinn, allt er nú sem orðið nýtt, ærnar, kýr og smalinn. Kveður í runni, kvakar í mó kvikur þrastasöngur; eins mig fýsir alltaf þó: aftur að fara’ í göngur. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri