Pistill bæjarstjóra, 27. mars 2020

Ágætu íbúar.
Ástandið í heiminum er eins og svo oft er sagt, fordæmalaust! Við lifum á þessum óvenjulegu tímum og öll erum við að reyna að aðlagast nýjum háttum. Covid-19 ruddist inn í líf okkar og sennilega verður ekkert eins á eftir þegar vágesturinn hverfur á brott. Þessi sameiginlegi óvinur okkar allra hefur þó á einhvern hátt kallað fram það besta í fólki. Allir leggjast á eitt um að láta hlutina ganga þrátt fyrir kvíða og ótta um heilsu og afkomu þjóðar. Við stöndum saman á þessum erfiðu tímum og það er ómetanlegt.
Í dag, föstudaginn 27. mars, er staðan sú að enginn hefur verið greindur með Covid-19 í Snæfellsbæ. Það eru góðar fréttir. Á Vesturlandi eru smitaðir 12 og í sóttkví á Vesturlandi eru nú 299.
Nú er 21 dagur liðinn frá því að ríkislögreglustjóri lýsti yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19). Frá þeim tíma hafa stofnanir sveitarfélagsins starfað eftir þeim tilmælum sem gefin hafa verið út, sem hafa það að markmiði að halda úti eins miklu starfi og kostur er miðað við þessar aðstæður og fyrirskipaðar takmarkanir.
Við höfum farið eftir fyrirmælum frá embætti landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem hægt er að nálgast á síðu fyrrgreindra aðila, https://www.covid.is/.
Það starfsfólk okkar sem hefur þurft að fara í sóttkví eða átt aðstandendur sem hafa þurft að fara í sóttkví hafa eins og aðrir þurft að fara eftir þeim ströngu reglum sem þar koma fram - sjá https://www.covid.is/flokkar/sottkvi.
Sveitarfélagið og stofnanir þess veita engar undantekningar frá þessum reglum og eða líða að starfsmenn fari ekki eftir þeim. Það er mjög mikilvægt að virða þessar reglur til að takmarka útbreiðslu vírusins.
Þann 24. mars barst bréf til skólastjórnenda frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Ölmu Möller landlækni þar sem þau árétta mikilvægi þess að nemendur í leik- og grunnskólum haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir takmarkanir á skólastarfi.
Þar kom m.a eftirfarandi fram:
  1. Heilbrigð börn ættu að halda áfram að sækja sinn skóla. Námið er þeim mikilvægt, sem og sú virkni og aðhald sem því fylgir.
  2. Kennarar og starfsfólk skóla er framlínufólk í núverandi aðstæðum. Skólarnir eru mikilvægur hlekkur í okkar samfélagi og framlag skólasamfélagsins afar dýrmætt í því samhengi. Staðan er flókin og kallar á fjölbreyttar leiðir, úthald og sveigjanleika af hálfu allra.
Starfið í grunn- og leikskólum hefur gengið afar vel þrátt fyrir krefjandi verkefni og ber að hrósa öllum þeim sem þar starfa fyrir þeirra framlag og vil ég ítreka það sem kom fram hér að ofan um mikilvægi þess fyrir samfélagið að halda úti starfsemi grunn- og leikskóla.
Ég á ekki nógu stór orð til að hrósa öllu starfsfólki Snæfellsbæjar þessa dagana. Það eru allir að leggja sig fram við erfiðar aðstæður hvert sem litið er. Eins og áður sagði er starfsfólk leik- og grunnskóla að vinna við mjög breyttar aðstæður. Það á við um aðrar deildir líka, það eru allir að leggja sitt af mörkum í þjónustu við íbúana. Það var t.d. gaman að sjá hvernig starfsfólkið á Jaðri með útsjónarsemi nýtti sér tæknina til að aðstandendur geti verið í samskiptum við heimilisfólkið sem auðvitað saknar síns fólks. (sjá fésbókarsíðu Jaðars).
Inga, forstöðukona Jaðars, hefur óskað eftir að fólk skrái sig á bakvarðalista fyrir Jaðar og hefur því verið afar vel tekið. Enn vantar þó fleiri á listann og skora ég á þá sem hafa hug á því að gerast bakverðir að skrá sig sem fyrst, hægt er að skrá sig með því að senda nafn og símanúmer á netfangið jadar@snb.is.
Sundlaugarnar lokaðu í byrjun vikunnar og erum við að nota tímann til að fara í smá framkvæmdir í sundlauginni í Ólafsvík og það sama erum við að gera með íþróttahúsið í Ólafsvík en þar er verið að setja upp hljóðkerfi í húsinu.
Við ykkur íbúana vil ég segja að ég er afar stoltur af ykkar framlagi, með samstilltu átaki náum við að vinna sem best gegn þessum vágesti. Það er svo mikilvægt að við förum öll eftir þeim tilmælum sem að okkur er beint. Á heimasíðu Snæfellsbæjar www.snb.is og á facebooksíðu má finna m.a. tilmæli til viðskiptavina verslana og þjónustuaðila vegna samkomubannsins.
Almannavarnarnefnd Vesturlands fundar reglulega og jafnframt fáum við daglega upplýsingar frá aðgerðarstjórn. Við erum að senda mikið efni frá okkur sem kemur inn á heimasíðu Snæfellsbæjar og fésbókarsíðuna og vil ég beina þeim tilmælum til allra að lesa þau vel.
Þegar mikið gengur á þarf fólk líka að passa að létta sér lífið og hafa gaman og ekki gleyma yngsta aldurshópnum. Bæjarbúar hafa tekið vel í verkefnið „bangsar í glugga“ sem skemmtir bæði börnum og fullorðnum á ferð um bæinn og hvet ég alla til að taka þátt í því.
Menningarstarf er öflugt í landinu þó samkomubann sé í gildi og mikið úrval er af allskyns uppákomum, upplestri, tónleikum ofl. bæði á netinu og í sjónvarpinu. Við getum haft gaman saman þó með breyttu sniði sé.
Hér í Snæfellsbæ er gott að upplifa að samfélagið er að taka á þessu stóra verkefni af mikilli alvöru og allir eru að leggja sig fram um að fara eftir þeim tilmælum sem til okkar er beint.
Stöndum saman í baráttunni við vágestinn. Höldum í gleðina og hlúum að fólkinu í kringum okkur.
Góða helgi, kæru íbúar, í dag skín sólin og við trúum því að bráðum komi betri tíð með blóm í haga.