Pistill bæjarstjóra, 30. október 2020

Ágætu íbúar Snæfellsbæjar,

Veiran sem á heimsbyggðina herjar virðist ekki ætla að vera auðveld viðureignar, og nú í dag boðaði ríkisstjórnin hertar aðgerðir gegn henni, sem taka eiga gildi á miðnætti í dag og gilda í 2-3 vikur.  Við að sjálfsögðu fylgjum þeim fyrirmælum sem okkur eru gefin af mikilli alvöru, enda er markmiðið með þessu öllu saman að við getum notið aðventunnar og jólanna með okkar nánustu í eins miklum friði frá veiru og sóttvarnaraðgerðum og mögulegt er.

Þrátt fyrir allt, þá megum við samt ekki gleyma gleðinni.  Við verðum að njóta þess sem hægt er; fjölskyldunnar, útiverunnar, og alls þess skemmtilega sem þó er hægt að gera þrátt fyrir höft.  Við verðum öll að sameinast um að gera það besta og jákvæðasta úr aðstæðunum. 

Í tilefni af hertum sóttvarnaraðgerðum langar mig til að fara yfir nokkrar hluti og ítreka nauðsyn þess að við hugum vel að persónulegum sóttvörnum.  Það eru þær sem skipta mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft.  Við þurfum öll að passa upp á fjarlægðartakmörk, þvo okkur vel og oft um hendurnar og spritta áður og eftir að við komum við sameiginlega snertifleti.

Við skulum nota grímur þegar við förum í verslanir og á aðra staði þar sem erfitt getur verið að halda 2 metra reglunni.  Reynum að dvelja í verslunum í eins skamman tíma og mögulegt er.  Reynum að vera skipulögð.  Vitum hvað okkur vantar áður en við förum inn í búð.  Verslum frekar meira í einu og fækkum búðarferðum.

Hugsum um okkur sjálf og þá sem eru í kringum okkur.  Erum við að virða 2 metra regluna?  Ef okkur finnst við vera of nálægt, fjarlægjum þá okkur sjálf úr þeim aðstæðum.  Við berum ábyrgð á okkur.

Sleppum öllum fjölskylduboðum í bili, nú umgöngumst við bara þá sem brýn þörf er á.  Leyfum okkur frekar að hlakka til þess að geta verið með okkar fólki á aðventunni og um jólin.

Það sem breytist helst hjá okkur hér í Snæfellsbæ við þessar hertu reglur er að frá og með deginum á morgun, 31. október og til og með þriðjudeginum 17. nóvember, verða sundlaugar Snæfellsbæjar í Ólafsvík og á Lýsuhóli lokaðar með öllu.

 Allt íþróttastarf fellur niður og verður því íþróttahús Snæfellsbæjar lokað.  Það sama gildir um bókasafnið og félagsstarf eldri borgara mun ekki verða opnað aftur í Klifi fyrr en að þessum tíma loknum.

Á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Jaðri hafa verið settar harðari heimsóknar- og sóttvarnarreglur, enda er ekki hægt að leggja nægilega áherslu á hversu vel við verðum að halda utan um fólkið okkar þar.

Varðandi aðra starfsemi, þá óskum við eftir því að fólk takmarki komur sínar á stofnanir bæjarins eins og hægt er.  Ef hægt er að sinna erindinu í síma eða rafrænt, þá er það æskilegt.

Varðandi skólana okkar, þá er ljóst að þar geta mögulega orðið einhverjar breytingar frá og með mánudeginum.  Um þær breytingar getum við hins vegar ekkert sagt fyrr en reglugerð menntamálaráðuneytisins verður gefin út nú um helgina.  Við viljum samt fullvissa foreldra um það að þeir verða upplýstir um allt skólastarf um leið og hægt er, bæði beint frá skólanum en jafnframt hér á vef Snæfellsbæjar.

Að lokum við ég ítreka það að fólk fylgi fyrirmælum, haldi 2 metrunum og virði fjöldatakmarkanir.  Við komumst í gegnum þetta saman, en samstaða skiptir miklu máli svo við getum horft áfram veginn til gleðilegra jóla.  Tökum sameiginlega á þessu hratt og örugglega.  Sýnum tillit og verum góð hvert við annað.

Góða helgi, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri.