Pistill bæjarstjóra 7. október 2020
Ágætu íbúar Snæfellsbæjar,
Við erum nú í miðri þriðju bylgju Covid-19 og vonumst til að með hertum aðgerðum á landsvísu og enn hertari aðgerðum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem bylgjan er sem öflugust, fari hún hratt og örugglega niður á við. En til þess að það geti gerst þá þurfum við öll að standa saman og huga að okkar eigin sóttvörnum. Við gerðum þetta vel í vor og við getum gert það aftur.
Fyrir okkur hér í Snæfellsbæ skiptir miklu máli að við förum í einu og öllu eftir því sem fyrir okkur er lagt. Við biðlum nú til fólks að halda sig eins mikið til hlés og mögulegt er. Ef við getum mögulega unnið heima, gerum það. Höldum búðarferðum í lágmarki, verslum meira í einu, og takmörkum þann fjölda sem fer í einu inn í verslanir. Höldum ferðum milli landshluta í algjöru lágmarki þar til þetta er yfirstaðið. Tökum almennt tillit til náungans, notum andlitsgrímur, þvoum okkur og sprittum frekar oftar en sjaldnar.
Við í Snæfellsbæ höfum verið heppin hvað varðar smit og þegar þessi pistill er skrifaður höfum við ekki fengið nýtt smit í þessari bylgju. Hins vegar skulum við vera meðvituð um það að líkurnar á því að smit muni fljótlega koma hjá okkur eru miklar og munum við að sjálfsögðu bregðast við því eins og fyrir okkur er lagt. Við höfum farið í gegnum þetta áður og getum gert það aftur. Við stöndum saman og reynum að minnka þau áhrif sem hugsanleg smit geta haft á samfélagið. Við þurfum líka að muna að enginn biður um smit og smitskömm þjónar engum tilgangi.
Við þurfum að vernda viðkvæmustu íbúana okkar og á Dvalarheimilinu Jaðri eru ákveðnar takmarkanir í gangi. Hvetjum við fólk til að kynna sér þær áður en haldið er í heimsókn á heimilið. Félagsstarf eldri borgara er nú komið í tveggja vikna frí. Við tökum stöðuna aftur að hálfum mánuði liðnum. Það sama má segja um Smiðjuna í Ólafsvík og utanaðkomandi heimsóknir eru ekki leyfðar í leik- og grunnskólum. Félagasamtök hafa frestað fundum í bili, kirkjukórar æfa ekki og ekkert messuhald verður í október. Að öðru leyti helst starfsemi Snæfellsbæjar nánast óbreytt en við hvetjum fólk til að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Ef hægt er að leysa málið með símtali, tölvupósti eða fjarfundi þá er það æskilegri leið.
Rétt er einnig að upplýsa það að reglulega er fólk sem telur sig finna fyrir einkennum vegna Covid. Það fólk er sett í skimun hjá okkur og hafa nú farið 103 einstaklingar í slíkt próf fyrir utan stóru skimunina sem fór fram í sumar en þá voru tæplega 300 manns skimaðir fyrir veirunni. Það er mjög gott að fólk sýni samfélagslega ábyrgð ef það finnur til einkenna, hver sem þau eru. Haldið ykkur til hlés og hafið samband við heilsugæsluna til að athuga hvort tilefni sé til þess að fara í skimun. Heilbrigðisstarfsfólk metur það svo í hverju tilviki hvort skimun sé nauðsynleg.
Munum að við öll skiptum máli, hlýðum Víði, við erum öll almannavarnir, sameinuð klárum við þetta verkefni, hér er um tímabundið ástand að ræða.
Góðar kveðjur, Kristinn Jónasson bæjarstjóri.