Pistill bæjarstjóra vegna COVID-19

Ágætu íbúar,

eins og allir hafa tekið eftir, þá gengur mikið á í okkar samfélagi og nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við öll gerum allt sem í okkar valdi stendur og tökum höndum saman um að hefta útbreiðslu COVID-19.

Eitt af stóru verkefnum vikunnar hjá okkur var að skipuleggja starfsemi grunn- og leikskóla upp á nýtt, það tókst frábærlega og eiga allir sem komu að þeirri vinnu mikið hrós skilið.

Hér að neðan eru nokkrir punktar sem ég vil biðja ykkur öll að lesa, því nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að fólk kynni sér eins vel og hægt er hvernig við eigum að haga okkur í þeirri stöðu sem við erum í nú:

  1. Allir íbúar Íslands sem hafa dvalið erlendis og snúa heim 19. mars eða síðar þurfa að fara í sóttkví í 14 daga.  Þetta er ekki val og mikilvægt að allir sem þetta á við um fylgi leiðbeiningum um sóttkví á heimili sem lýsa því hvað má og má ekki á meðan á sóttkví stendur.
  2. Mikilvægt er að þeir sem þurfa að fara í sóttkví tilkynni sig til heilsugæslustöðvarinnar í Ólafsvík í síma 432-1360 og það er ítrekað að þetta er ekki val heldur skylda.
  3. Það eru vinsamleg tilmæli til allra íbúa að takmarka komur sínar á þær stofnanir bæjarins sem eru enn opnar fyrir almenning og nota frekar tölvupóst eða síma.
  4. Mikilvægt að fólk kynni sér og virði hertar reglur um óþarfa umferð á þeim stofnunum bæjarins þar sem það á við t.d. á dvalarheimili, grunnskólum, leikskólum, tónlistarskóla og nú síðast hafnarvogunum.
  5. Í ljósi aukinnar dreifingar veirunnar um land allt beini ég þeim tilmælum til íbúa að draga úr öllum ónauðsynlegum ferðum milli byggðarlaga og landshluta ef þess er nokkur kostur. Ég hvet okkur öll til að nýta frekar símann, samfélagsmiðla og hin ýmsu forrit til samskipta.
  6. Virðum regluna um tveggja metra fjarlægð milli fólks og munum að þetta á við um okkur öll.
  7. Ég minni enn og aftur á upplýsingasíðuna https://www.covid.is/ þar sem birtar eru nýjustu og bestu upplýsingar um faraldurinn hverju sinni og leiðbeiningar um ýmis mál honum tengd.
Við erum öll saman í þessu verkefni. Hugum að okkar eigin heilsu bæði líkamlegri og andlegri og fylgjumst með fólkinu í kringum okkur.  Það er rík ástæða til að tapa ekki gleðinni og rannsóknir hafa sýnt að jákvæðar tilfinningar geta eflt ónæmiskerfið. Þegar veður lagast er hægt að stunda hressandi útiveru og endilega verum í nærandi samskiptum hvert við annað þó það þurfi að vera yfir netið eða í gegnum síma.
 
Munum að öll él birtir upp um síðir – nú sem áður.
 
Góða helgi,
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri