Ragnar Már Ragnarsson nýr byggingarfulltrúi hjá Snæfellsbæ
25.06.2021 |
Fréttir
Ragnar Már Ragnarsson hefur verið ráðinn í starf byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar. Ragnar hefur þegar hafið störf og nýtt fyrstu dagana til að kynnast aðstæðum áður en hann fer í sumarfrí. Hann kemur svo að fullu til starfa í lok júlí.
Ragnar ólst upp á Akranesi þar sem hann sleit barnsskónum áður en hann flutti suður og síðar erlendis, til Horsens í Danmörku. Undanfarin ár hefur hann verið búsettur í Stykkishólmi með eiginkonu sinni, Þórnýju Öldu Baldursdóttur, og börnum.
Hann kemur til starfa hjá Snæfellsbæ frá Þjóðskrá Íslands þar sem hann starfaði við fasteignamat. Einnig starfaði hann sjálfstætt við ýmis verk á sviði fasteigna, s.s hönnun, hlutverk byggingarfulltrúa fyrir sveitarfélög, við eftirlit og sem byggingaverktaki.
Ragnar lauk BSc í byggingafræði frá Vitrus Bering í Horsens árið 2004 og Mastersprófi í MPM í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands árið 2007. Auk þess sótti hann löggildingu til að leggja fram aðaluppdrætti árið 2009 og þá nam hann skipulagsfræði tímabundið árið 2012.
Við óskum Ragnari til hamingju með stöðuna og bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa.