Róbotar, rafrásir og forritun í Snæfellsbæ
Um páskana fyrirhugar Skema að halda skapandi tækninámskeið í Snæfellsbæ fyrir börn í 1. - 7. bekk. Námskeiðin fara fram í Grunnskólanum í Ólafsvík í næstu viku, dagana 16. og 17. apríl. Kennt verður báða dagana, þrjá tíma í senn, samtals 6 klst.
- Námskeið fyrir yngri hóp stendur báða daga frá kl. 9:00 - 12:00.
- Námskeið fyrir eldri hóp stendur báða daga frá kl. 13:00 - 16:00.
Skema er fyrirtæki sem nú er hluti af Háskólanum í Reykjavík og hefur frá stofnun unnið ötullega að því að kenna börnum og unglingum forritun með ýmsum fjölbreyttum tækninámskeiðum. Námskeiðin hafa það að leiðarljósi að styrkja ýmsa færni, m.a. rökhugsun, sköpun, félagsfærni, teymisvinnu, samskipti, betri sjálfsmynd og þrautalausnir.
Tvö námskeið verða í boði hér í bæ um páskana og má lesa nánar um þau hér að neðan:Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til að leysa hin ýmsu verkefni með því að skapa lausnir með LittleBits rafrásum. LittleBits eru lítríkir kubbar sem smellast saman með seglum til að endurspegla rafrásir og efla sköpunarkraft nemenda. Á námskeiðinu verður einnig unnið með Makey Makey örtölvuna sem er frábært tæki sem breytir einföldum hlutum í stjórntæki fyrir tölvuna. Sem dæmi má nefna banana, blóm og hnífapör sem breytt er í hljóðfæri eða lyklaborð.Nemendur fá einnig að kynnast hönnun tölvuleiks með Bloxels kubbum og hvernig hægt er að vekja hann til lífs með Bloxels appinu. Yngstu nemendurnir fá að kynnast því hvernig hægt er að lita mynd á blaði og sjá síðan lifandi þrívíða útgáfu í spjaldtölvu.
Við skoðum líka Raspberry Pi og hvernig hún hefur verið nýtt til að setja saman eitt stykki Kano tölvu og hvernig hægt er að nýta þá tölvu til að forrita og kynnast einföldum tölvuskipunum.Svo má ekki gleyma róbótafjölskyldunni okkar en við setjum upp hinar ýmsu þrautir til að leysa með Ollie, Sphero og BB-8 róbótunum.Á námskeiðinu er farið í gegnum grunnatriði forritunarmál með Scratch. Scratch er kubbaforritunarmál hannað til þess að kenna börnum grunnhugtök forritunar og forritunarlegrar hugsunar í einföldu og myndrænu umhverfi. Námskeiðið er kennt í gegnum litla leiki sem nemendur hanna og forrita með leiðbeinendum Skema. Námskeið Skema byggja á hugtökum jafningjalærdóms og tilraunastarfsemi.
Með yngri þátttakendum notum við Kodu Game Lab, en það er enn einfaldara umhverfi sem krefst ekki mikis læsis og höfðar þess vegna betur til yngri þátttakenda.
Scratch er frítt forritunarumhverfi sem er aðgengilegt á netinu. Þetta gerir það að verkum að nemendur geta auðveldlega haldið áfram að fikta í og læra á forritun heimavið. Scratch er aðgengilegt á íslensku.