Skógræktarfélag Ólafsvíkur er Snæfellsbæingur ársins 2020
18.06.2020 |
Fréttir
Við hátíðlega athöfn í Sjómannagarðinum á þjóðhátíðardaginn hlaut Skógræktarfélag Ólafsvíkur nafnbótina Snæfellsbæingur ársins 2020.
Hilmar Már Arason tók við nafnbótinni fyrir hönd Skógræktarfélags Ólafsvíkur.
Það er menningarnefnd Snæfellsbæjar sem hefur veg og vanda af útnefningunni ár hvert. Nefndin óskaði jafnframt eftir tilnefningum frá íbúum sem hún hafði til hliðsjónar við val á Snæfellsbæingi ársins.
Meðfylgjandi er ræða sem Erla Gunnlaugsdóttir, formaður menningarnefndar Snæfellsbæjar, hélt við þetta tilefni:
Góðan dag og gleðilegan þjóðhátíðardag, Fyrir hönd menningarnefndar vil ég byrja á því að þakka bæjarbúum fyrir þátttöku í vali á Snæfellsbæing ársins sem fram fór á vef Snæfellsbæjar. Bæjarbúar ásamt menningarnefnd hafa valið Skógræktarfélag Ólafsvíkur sem Snæfellsbæing ársins 2020. Skógræktir í Snæfellsbæ eru til mikillar fyrirmyndar og mikil prýði í okkar samfélagi. Í Ólafsvík hefur mikil vinna verið unnin sl. ár m.a. mikið af trjám verið gróðursett, stígar lagðir, brýr byggðar, borð og bekkir smíðað. Þá er búið að tengja göngustíg við eldri Skógrækt nálægt Rafstöðinni. Framkvæmdin, undir forystu Vagns Ingólfssonar, er til fyrirmyndar sem unnin hefur verið í sjálfboðavinnu og mun hún nýtast öllum Snæfellsbæingum um ókomna tíð ásamt öllum þeim gestum sem okkur sækja heim. Innilega til hamingju Skógræktarfélag Ólafsvíkur með nafnbótina og afmælið.