Skógræktarfélag Ólafsvíkur fær aukið landsvæði undir Landgræðsluskóg
Snæfellsbær og Skógræktarfélag Ólafsvíkur hafa gert með sér samning sem stuðlar að ræktun Landgræðsluskóga á landi Snæfellsbæjar.
Samningurinn er til 75 ára og færir Skógræktarfélagi Ólafsvíkur 39,51 hektara land til að rækta upp, þar af eru 12,19 hektarar skilgreindir á nýju skógræktarsvæði eins og sjá má á meðfylgjandi lóðarblöðum/myndum. Eldri samningur sem gerður var árið 2011 féll úr gildi við undirritun nýja samningsins.
Skógræktarfélag Íslands er aðili að samningnum og leggur til þær plöntur sem Skógræktarfélag Ólafsvíkur gróðursetur á landinu ásamt því að hafa faglega umsjón með verkefninu.
Þess má geta að Landgræðsluskógar eru skógræktar- og uppgræðsluverkefni á vegum skógræktarfélaganna í samstarfi við Landgræðsluna, Skógræktina og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Landgræðsluskógar eru umfangsmesta skógræktar- og uppgræðsluverkefni skógræktarfélaga um allt land.
Hér að neðan má sjá skýringarmyndir af skilgreindu skógræktarsvæði skv. nýjum samningi.
Ljósmynd: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Vagn Ingólfsson, formaður Skógræktarfélags Ólafsvíkur og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri undirrita samninginn sl. laugardag. Alfons Finnsson tók myndina.