Smári Jónas nýr starfsmaður á tæknideild Snæfellsbæjar

Smári Jónas Lúðvíksson hefur verið ráðinn til starfa á tæknideild Snæfellsbæjar.

Smári hóf störf 1. júní sl. og hefur nýtt fyrstu dagana í að koma sér inn í fjölbreytt verkefni tæknideildar.

Smári er fæddur og uppalinn á Rifi og kemur til starfa hjá Snæfellsbæ með umfangsmikla reynslu af umhverfismálum á grunni sveitarfélaga.

Hann starfaði sem garðyrkjustjóri og síðar umhverfisstjóri hjá Norðurþingi í tæp 7 ár áður en hann hann hóf störf sem verkefnastjóri umhverfismála hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Þar tók hann þátt í opinberri stefnumótun fyrir hönd sveitarfélaga, sat í Loftslagsráði og veitti ráðgjöf til sveitarfélaga á Norðurlandi eystra varðandi innleiðingu nýrra laga um meðhöndlun úrgangs og auknar kröfur og áskoranir í umhverfismálum.

Smári er með B.S. gráðu í umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Hann hefur einnig lokið skrúðgarðyrkjufræði frá sama skóla.

Við óskum Smára innilega til hamingju með starfið og bjóðum hann hjartanlega velkominn aftur heim.