Smit af völdum kórónaveirunnar í þriðju bylgju faraldursins hefur greinst í Snæfellsbæ

Smit af völdum kórónaveirunnar í þriðju bylgju faraldursins hefur nú greinst í Snæfellsbæ. Einstaklingurinn sem um ræðir var að koma erlendis frá og greindist við landamæraskimun.  Við höfum verið afskaplega lánsöm hingað til en þetta er þó í þriðja skipti sem smit kemur upp í sveitarfélaginu og ljóst að við erum öll farin að þekkja þetta betur en við kjósum. Í fyrri tilfellum var ómetanlegt að sjá samheldni íbúa og í stöðu sem þessari skiptir miklu máli að íbúar sinni persónubundnum smitvörnum og sýni hvort öðru virðingu og kærleika.  Líkt og áður fer nú af stað ákveðið ferli sem stýrt er af sérfræðingum og hefur rakningarteymi á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis tekið við stjórn málsins. Við fylgjum þeim í hvívetna og biðlum til íbúa að gera það líka.  Við ítrekum og áréttum aftur mikilvægi þess að íbúar haldi áfram að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum sóttvarnarlæknis og rétt að minna íbúa á að fylgjast vel með fréttaflutningi og öðrum tilkynningum frá Snæfellsbæ.