Snæfellsbær fjölgar sumarstarfsmönnum verulega

Snæfellsbær fjölgar sumarstarfsmönnum verulega í ljósi atvinnuástandsins í samfélaginu í kjölfar Kórónaveirufaraldursins.   Undanfarin ár hefur Snæfellsbær ráðið 16 – 20 ungmenni til að sinna ýmsum verkefnum sem falla til á sumrin, m.a. sem flokkstjóra í vinnuskóla og aðra sumarvinnu. Í ljósi atvinnuástands ungs fólk þetta árið var hins vegar ákveðið að Snæfellsbær myndi ráða hátt í 40 ungmenni til starfa. Stór hluti þeirra tekur að sér ný störf í sveitarfélaginu, ekki hefðbundin sumarafleysingarstörf. Fyrstu sumarstarfsmennirnir hefja störf núna í maí og standa ráðningar fram í miðjan ágústmánuð. Hluti af þessum störfum falla undir atvinnuátak sveitarfélagsins í samvinnu við Vinnumálastofnun sem felur í sér að Vinnumálastofnun hefur samþykkt að greiða niður hluta launa tólf starfsmanna í tvo mánuði. Allir sumarstarfsmenn hjá Snæfellsbæ verða samt sem áður ráðnir til starfa í allt sumar eða þar til skólahald hefst.