Snæfellsbær hlýtur styrk til áframhaldandi uppbyggingar við Bjarnarfoss

Bjarnarfoss. Ljósmynd: Thomas Schnitzler.

Snæfellsbær fékk á dögunum úthlutað fjármunum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til áframhaldandi uppbyggingar við Bjarnarfoss.

Styrkurinn er veittur til að bæta vegvísun, upplýsingagjöf og öryggi á áningarstaðnum við Bjarnarfoss. Uppbygging á þessum vinsæla áningarstað heldur því áfram og aðgengi að honum verður bætt auk þess viðkvæm náttúra verður vernduð. Styrkurinn hljóðar upp á 3,68 milljónir króna.

Snæfellsbær hefur áður fengið úthlutað fjármunum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til hönnunar og framkvæmdar við Bjarnarfoss og skemmst er að minnast þess að verkefnið hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2018 fyrir vel heppnaðar framkvæmdir. Það er mjög ánægjulegt að sjá verkefnið fá áframhaldandi styrk, en verkefni fá alla jafna ekki áframhaldandi styrkveitingu nema öll skilyrði fyrri styrkveitinga hafi verið uppfyllt og framkvæmdum lokið með fullnægjandi hætti.