Sólarpönnukökur bakaðar
Löng hefð hefur myndast fyrir því undir lok janúarmánaðar að Kvenfélag Ólafsvíkur baki sólarpönnukökur í tilefni þess að sólin nái fyrir Ennið og skíni á bæjarbúa eftir um tveggja mánaða fjarveru. Um er að ræða eina helstu fjáröflun kvenfélagsins, en það hefur í gegnum tíðina styrkt mörg félagasamtök og málefni.
Fyrirtæki og stofnanir í bænum eru dugleg að bjóða starfsmönnum sínum upp á pönnukökur í tilefni dagsins og ærið verkefni sem bíður kvenfélagsins ár hvert. Rúmlega tuttugu vaskar konur tóku daginn því snemma og voru mættar í Félagsheimilið Klif um fimmleytið í morgun til að hræra í og baka 2070 sólarpönnukökur með öllu tilheyrandi fyrir bæjarbúa - og fóru létt með það.
Allar pönnur voru rjúkandi heitar og góður ilmur í loftinu þegar óskað var eftir hópmyndatöku og ekki stóð á svari. Vandræðalaust brostu þær fyrir ljósmyndara og sumar hverjar án þess að sleppa pönnuskaftinu, enda tíminn naumur og ekki máttu nú pönnukökurnar brenna við.