Stefán Jónsson ráðinn garðyrkjufræðingur hjá Snæfellsbæ

Stefán Jónsson hefur verið ráðinn garðyrkjufræðingur hjá Snæfellsbæ. Stefán hóf störf fyrr í vikunni og hefur nýtt fyrstu dagana í að klippa gróður og undirbúa fyrir sumarið, m.a. á Hellissandi og við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar í Ólafsvík.

Stefán er Vestlendingur í húð og hár, fæddur og uppalinn á Deildartungu í Reykholtsdal, og fluttist hingað nýverið til að taka við starfinu. Áður hefur hann m.a. starfað hjá EFLU verkfræðistofu þar sem hann hélt utan um viðhald á stofnanalóðum og leikvöllum Reykjavíkurborgar og sem garðyrkjustjóri hjá Golfklúbbi Reykjavíkur.

Stefán er með B.S. gráðu í landslagsarkitektúr frá Landbúnaðarháskóla Íslands og meistaragráðu í sama fagi frá Konunglega danska landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann lét ekki þar við sitja og hefur undanfarin ár numið skrúðgarðyrkjufræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, hvaðan hann útskrifast sem skrúðgarðyrkjufræðingur á næstu vikum. Talandi um að geta blómum á sig bætt.

Við óskum Stefáni til hamingju með starfið og bjóðum hann hjartanlega velkominn til Snæfellsbæjar.