Stóri plokkdagurinn er sunnudaginn 30. apríl

Stóri plokkdagurinn verður haldinn um land allt sunnudaginn 30. apríl og hvetja sveitarfélögin á Snæfellsnesi, Svæðisgarðurinn Snæfellsnes og Umhverfisvottun Snæfellsness íbúa til að plokka og fegra nærumhverfi sitt í tilefni dagsins.

Þetta þarf ekki að vera flókið og eru íbúar einfaldlega hvattir til að plokka í sínu nærumhverfi. Margt smátt gerir eitt stórt. Hér að neðan má einnig sjá kort yfir þau svæði sem fólk er hvatt til að plokka í Snæfellsbæ vilji það fara aðeins lengra frá heimili sínu. Hægt verður að skilja sorp eftir við áhaldahúsið í Ólafsvík og gömlu slökkvistöðina á Hellissandi. Athugið að allt sorp verður að fara í poka. Ekki skilja eftir lausamuni eða annað slíkt.

Starfsfólk Snæfellsjökulsþjóðgarðs hefur einnig skipulagt plokk á Hellnum á sunnudeginum og bjóða öllum áhugasömum að slást í för með landvörðum og hreinsa friðlandið við Hellnafjöru. Hist verður við bílastæðið kl. 11:00 og pylsur grillaðar fyrir plokkara að loknu góðu dagsverki.

Nú er rétti tíminn til að plokka þar sem rusl er áberandi, snjórinn farinn og gróðurinn að taka við sér. Það gerir ruslatínslu auðveldari og kjörið tækifæri til að hreyfa sig og fegra umhverfið í leiðinni. Sýnum umhverfinu og samfélaginu kærleik og plokkum eins og vindurinn.