Stóri plokkdagurinn í Snæfellsbæ 2025

Stóri plokkdagurinn verður haldinn um land allt sunnudaginn 27. apríl og eru íbúar hvattir til að plokka og fegra nærumhverfi sitt í tilefni dagsins.

Snæfellsbær tekur stóra plokkdeginum fagnandi og setur upp gáma fyrir plokk í Ólafsvík, Hellissandi og Rifi sem verða aðgengilegir íbúum frá 22. apríl til 29. apríl.

Snæfellsbær útvegar plokkurum jafnframt poka sem hægt verður að nálgast í Ráðhúsi Snæfellsbæjar, Sjoppunni Ólafsvík, Áhaldahúsi Snæfellsbæjar, Smiðjunni Fönix á Rifi og Hraðbúðinni á Hellissandi. Gámar undir afrakstur plokksins verða staðsettir við Átthagastofu í Ólafsvík, Röstina á Hellissandi og grenndarstöðina á Rifi.

Snæfellsjökulsþjóðgarður blæs einnig til plokkviðburðar sunnudaginn 27. apríl í samstarfi við Hótel Búðir.

Nú er rétti tíminn til að plokka þar sem rusl er víða áberandi og gróðurinn að taka við sér eftir veturinn. Stóri plokkdagurinn veitir því kjörið tækifæri til að hreyfa sig og fegra umhverfið í leiðinni eftir páskahátíðina.

Sýnum umhverfinu og samfélaginu kærleik og plokkum eins og vindurinn.