Stóri plokkdagurinn í Snæfellsbæ - 25. apríl
Snæfellsbær hvetur alla íbúa til að taka þátt í hreinsun og fegrun umhverfisins af tilefni degi umhverfisins þann 25. apríl næstkomandi.
Stóri plokkdagurinn verður einnig á laugardaginn og af því tilefni ætlar Snæfellsbær að blása til vorhreinsunar í sveitarfélaginu. Vonast er til þess að íbúar taki vel í verkefnið og plokki rusl í sínu nærumhverfi.
Hægt verður að skilja sorp eftir við áhaldahúsið í Ólafsvík og gömlu slökkvistöðina á Hellissandi. Athugið að allt sorp verður að fara í poka. Ekki skilja eftir lausamuni eða annað slíkt.
Snæfellsbær útvegar glæra poka sem hægt verður að nálgast í Olís Ólafsvík og Hraðbúðinni á Hellissandi á opnunartíma. Á laugardögum er opið frá kl. 10:00 14:00 í Olís og 11:00 - 19:00 í Hraðbúðinni. Kjósi einhverjir að fara sjálfir með það sorp sem safnast er minnt á að opið er á starfsstöð Terra umhverfisþjónustu frá kl. 11:00 - 15:00 á morgun, laugardag.
Nú er akkúrat tíminn til að plokka þar sem rusl er áberandi, snjórinn farinn og gróðurinn að taka við sér. Það gerir ruslatínslu auðveldari og kjörið tækifæri til að hreyfa sig og fegra umhverfið í leiðinni. Sýnum umhverfinu og samfélaginu kærleik og plokkum eins og vindurinn!
Athugið: Vegna samkomubanns þarf að fylgja gildandi reglum um fjölda í hóp og fjarlægð á milli þátttakenda í hreinsunarátakinu. Nokkur góð ráð til plokkara frá Terra umhverfisþjónustu:- Útvega sér ruslapoka, hanska og plokktöng. Gott er að nota glæra poka poka til að hægt sé að sjá með einföldum hætti hvað leynist í pokunum.
- Hægt er að endurvinna efni á borð við pappa og plast sé það þurrt og laust við matarleifar. Þá þurfi hins vegar að halda því aðskildu og koma því í viðeigandi farveg.
- Klæða sig eftir aðstæðum.
- Virða samkomubannið og gæta að tveggja metra reglunni.
- Mikilvægt er að gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti vera, en tilkynna til foreldra eða umsjónarmanna svo mögulegt sé að fjarlægja þá.