Strandhreinsun á Snæfellsnesi 4. maí
Lengi hefur það tíðkast að íbúar tíni rusl í nærumhverfi sínu í þeim tilgangi að halda landinu hreinu og vernda dýralíf. Síðustu misseri hefur bæði umræðan um rusl í hafi eða landi og aðgerðir gegn þeim vanda aukist. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir viðfangsefninu en ekki síður þeim leiðum sem færar eru til að takast á við vandamálin. Þann 4. maí næstkomandi verður stóri strandhreinsunardagurinn, samvinnuverkefni fjölmargra hagsmunaaðila og íbúa á Snæfellsnesi. Markmiðið með þessu verkefni er að fjarlægja rusl úr fjörum og koma því sem hægt er til endurnýtingar.
Fjögur skipulögð svæði verða hreinsuð þennan dag og er öllum velkomið að taka þátt, ungum jafnt sem öldnum. Á hverju svæði verður leiðtogi sem heldur utan um hreinsun. Stórsekkir verða notaðir undir rusl og farið verður með þá á nærliggjandi gámastöðvar. Í lok hreinsunar verður öllum þátttakendum boðið upp á grillaðar pylsur og hressingu á hverju svæði fyrir sig. Nánari upplýsingar um staðsetningar, tíma og fleira er að finna í auglýsingu strandhreinsunarinnar, á samfélagsmiðlum og heimasíðum verkefnisins.Það eru Umhverfisvottun Snæfellsness og Svæðisgarðurinn Snæfellsnes sem halda utan um strandhreinsunina í ár í samstarfi við öflugt teymi hagsmunaðila á svæðinu. Snæfellsnes tekur þátt í samnorræna strandhreinsunarverkefni Bláa hersins, Hreinsum Ísland, en aðalhreinsun þess verkefnis í ár verður á Höfn í Hornafirði. Munu fulltrúar Snæfellsness halda utan um 10x100m tilraunareit á einu hreinsunarsvæði, líkt og önnur svæði á Norðurlöndunum, þar sem rusl verður sérstaklega flokkað og því komið í hendur Bláa hersins til greiningar.
Fyrir utan strandhreinsunardaginn sjálfan verða fleiri hreinsanir. Allir grunnskólar á Snæfellsnesi ætla að samræma sínu árlegu vorhreinsun strandhreinsunarverkefninu í ár. Nemendur vinna með fjöru og rusl í hafi sem þema í verkefnavinnu sinni og verður fjöruhreinsun hluti af því. Síðastliðin 10 ár hefur 8. bekkur Grunnskóla Snæfellsbæjar hreinsað fjöruna við Búðahraun og í ár munu þau fara frá kirkjunni að Frambúðum og ströndina til baka. Jafnframt munu nemendur við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í áfanga náttúruvísinda taka fyrir plastmengun í lokaverkefni sínu og tína rusl í fjörum Grundarfjarðar og greina uppruna þess. Starfsfólk og vistmenn Kvíabryggju hafa af nægu að taka. Með dráttarvél og kerru verður hreinsað á nærliggjandi fjöru yfir á norðanvert Kirkjufell og út á Búðir. Þar er töluvert af netum og öðru rusli sem kindur og önnur dýr hafa verið að flækjast í. Nokkrir listamenn, sem taka þátt í listsýningunni Umhverfing 3 sem verður á Snæfellsnesi í ár, ætla að innlima strandhreinsunina í verk sín með því að nota afrakstur hreinsunarinnar.
Umhverfing er árleg sýningaröð þar sem myndlistarmenn sameinast og tengja listsköpun við ákveðið svæði með það markmið að efla aðgengi íbúa að nútímalist í óhefðbundnum sýningarrýmum og skapa umræðu um tilgang lífs og lista.
Kæru Snæfellingar, við hvetjum ykkur til að taka þátt í þessu þarfa og skemmtilega samvinnuverkefni. Mætum vel búin og hreinsum land og fjöru Snæfellsness 4. maí!
Guðrún M. Magnúsdóttir, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness Hreinsunarstaðir strandhreinsunar