Takmörkun á samkomum vegna farsóttar
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnarlæknis og í samráði við ríkisstjórnina, að herða takmörkun á samkomum til að draga úr útbreiðslu kórónaveirunnar. Markmið takmörkunarinnar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.
Auglýsingin tekur gildi á miðnætti á mánudagskvöld kl. 00:01 þann 24. mars og gildir til 12. apríl næstkomandi. Takmörkunin tekur til landsins alls.
Helstu áhrif frekari takmörkunar samkomuhalds
Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar auglýsingar. Með fjöldasamkomum er átt við þegar 20 einstaklingar eða fleiri koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Er þá m.a. vísað til:
a. Ráðstefna, málþinga, funda o.þ.h.
b. Skemmtana, svo sem tónleika, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einkasamkvæma.
c. Kirkjuathafna hvers konar, svo sem vegna útfara, giftinga og ferminga, og annarra trúarsamkoma.
d. Annarra sambærilegra viðburða með 20 einstaklingum eða fleiri.
Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 20 einstaklingar inni í sama rými, svo sem á veitingastöðum, kaffihúsum, í mötuneytum og verslunum öðrum en matvöruverslunum og lyfjabúðum. Þessar takmarkanir eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilega starfsemi.
Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.
Nánar á vef stjórnartíðinda: