Teikningar Helga Jónssonar af fólki í Ólafsvík
Á dögunum fékk Snæfellsbær skemmtilega gjöf frá fjölskyldu Helga Jónssonar, fyrrverandi starfsmanns hjá Rafmagnsveitum ríkissins í Ólafsvík. Um er að ræða tugi teikninga af mannfólki, húsum og náttúruperlum í sveitarfélaginu.
Myndirnar voru flestar teiknaðar á árunum sem Helgi dvaldi við störf í Ólafsvík. Hann tók til starfa sem vélgæslumaður við rafstöðina í Ólafsvík árið 1963 og bjó þar og starfaði í áratug. Honum leið vel í Ólafsvík, líkaði vel við fólkið og lét sig samfélagið varða. Hann var m.a. einn af stofnendum Skógræktarfélags Ólafsvíkur og þá hannaði hann einnig og teiknaði merki Ungmennafélags Víkings árið 1969 sem enn er notað í dag.
Meðfylgjandi eru teikningar Helga af fólki í Ólafsvík frá 1967-1973. Margar þeirra eru merktar með nafni en þó ekki allar. Ef þú getur hjálpað okkur að fylla í eyðurnar má senda tölvupóst á heimir@snb.is eða snb@snb.is.Stefnt er að því setja upp sýningu með myndunum á haustmánuðum og gaman væri ef allar væru merktar með nafni viðkomandi.
ATH: Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær.