Tillaga að breyttu deiliskipulagi á Arnarstapa

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 5. september 2024 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi á Arnarstapa í samræmi við 1. mgr. 43. gr skipulagslaga.

Deiliskipulagstillagan nær til frístundasvæða F-4 og F-5 á Arnarstapa, Snæfellsbæ og eru hús á öllum lóðum svæðisins. Á frístundasvæðinu eru alls 36 lóðir og var gert ráð fyrir á deiliskipulagi frá 1988 að lóðir yrðu almennt um 2.000 fermetrar og að hús á lóðum yrðu að jafnaði ekki stærri en 50 fermetrar. Bæjaryfirvöld Snæfellsbæjar vilja gefa aukið svigrúm varðandi stærðir frístundahúsa. Í breytingartillögu er gert ráð fyrir að brúttó byggingarmagn á lóð verði allt að 140 fermetrar án tillits til stærðar lóðar.

Gögn eru frá Snæfellsbæ: Greinargerð, deiliskipulag fyrir breytingu í mælikvarða 1:2.000, tillaga að breyttu deiliskipulagi í mælikvarða 1:2.000 og umhverfisskýrsla áætlunar.

Hægt er að skoða tillöguna frá 12. september – 25. október 2024 á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar, skipulagsgatt.is, undir málsnúmeri 889/2024.

Kynningarfundur verður haldinn í gegnum fjarfundarbúnað í október 2024.

Umsagnaraðilum og þeim sem eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna í síðasta lagi 25. október 2024. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast inn á skipulagsgatt.is vegna máls númer 889/2024.

Skipulagsfulltrúi Snæfellsbæjar