Tónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kórum af Snæfellsnesi 7. mars

Sinfóníuhljómsveit Íslands sækir Snæfellsnes heim í vikunni og heldur tónleika í Stykkishólmi fimmtudagskvöldið 7. mars kl. 19:30.

Dagskrá tónleikanna skartar þremur verkum eftir höfuðtónskáld klassíska tímans en auk þess hljóma þrjú hugljúf íslensk lög í flutningi hljómsveitarinnar og sameinaðra kóra á Snæfellsnesi. Eitt þessara hugljúfu laga er eftir Valentinu Kay, skólastjóra tónlistarskóla Snæfellsbæjar, og er henni mikill sómi sýndur að því að fá verk eftir sig flutt með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í heild skipa kórinn um 80 söngvarar úr Kirkjukór Ólafsvíkurkirkju, Kirkjukór Grundarfjarðarkirkju, Karlakórnum Kára, Kirkjukór Ingjaldshólskirkju, Karlakórnum Heiðbjörtu, Kvennasveitinni Skaða og Kirkjukór Stykkishólmskirkju.

Tónleikarnir hefjast með fjörugum forleik Mozarts að óperunni Brúðkaup Fígarós og þá stígur kórinn á svið og syngur með hljómsveitinni. Síðan hljómar hinn ljúfi og glaðlegi C-dúr sellókonsert Josephs Haydn þar sem Steiney Sigurðardóttir sólósellóleikari fer með eineikshlutverkið. Eftir hlé leikur hljómsveitin 7. sinfóníu Beethovens sem er full af fegurð, lífsgleði og krafti. Stjórnandi tónleikanna er aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Eva Ollikainen.
 
Tónleikararnir fara fram í íþróttahúsi Stykkishólms og eru um 2 tímar með hléi.
 
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
 

Efnisskrá:

  • Wolfgang Amadeus Mozart: Brúðkaup Fígarós, forleikur
  • Atli Heimir Sveinsson: Kvæðið um fuglana úts. Hrafnkell Orri Egilsson
  • Sigvaldi Kaldalóns: Ave María úts. Hrafnkell Orri Egilsson
  • Valentina Kay: Sofðu vært Ellen
  • Joseph Haydn: Konsert fyrir selló og hljómsveit nr. 1 í C-dúr
  • Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr 7 í A-dúr
Hljómsveitarstjóri: Eva Ollikainen
Einleikari: Steiney Sigurðardóttir
 
Auk kvöldtónleikanna heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands skólatónleika fyrir yngri áheyrendur í íþróttahúsinu Stykkishólmi 8. mars. Þar flytur hljómsveitin tónlistarævintýrið um Maxímús Músíkús þar sem Maxi villist inn á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og kynnist töfrum tónlistarinnar af eigin raun. Sögumaður er Valur Freyr Einarsson leikari og Ross Jamie Collins heldur um tónsprotann.