Um áramót - pistill bæjarstjóra

Ágætu lesendur Jökuls.  Eins og löng hefð er orðin fyrir, mun ég í nokkrum orðum fara yfir nýliðið ár í Snæfellsbæ.

Ekki er hægt að byrja á grein sem þessari án þess að fara yfir þann þátt sem setti mest mark sitt á árið 2020, COVID -19.  Við fengum fregnir af því í  janúar að Kínverjar væru að reisa sjúkrahús með ógnarhraða í einu héraði landsins. Þó að fyrstu viðbrögð væru að dást að þessum mikla krafti, þar sem sjúkrahús átti að reisa og taka í notkun á rúmri viku þá kom fljótlega í ljós að mikið lá að baki. Ný kórónuveira hafði stungið sér niður í Wuhan í Kína  hún var mjög öflug,dreifði sér hratt og talin  stórhættuleg mönnum.

Hér á landi fórum við fljótlega að undirbúa okkur fyrir að veiran bærist til landsins og verð ég að viðurkenna að á fyrsta fundinum þar sem um málið  var fjallað í Almannavarnarnefnd Vesturlands þá var þetta allt mjög  óraunverulegt og erfitt að trúa þeirri mynd sem þá var teiknuð upp.

Við fórum að undirbúa okkur, kaupa grímur, einnota sloppa, spritt og hugsa fyrir því hvar við kæmum fólki fyrir sem veiktist og svo framvegis.  Allt gert til að reyna að vera sem best undirbúin fyrir það sem koma skyldi.

Veiran kom til landsins og til okkar hér í Snæfellsbæ.  Mikið álag var á fólki allt árið og allir að reyna að passa sig sem best til að smitast ekki eða smita aðra.  Ég verð að segja það að ég er ákaflega stoltur af öllum í okkar góða samfélagi sem hafa eins og þeim er unnt  reynt að passa sig og fara varlega.  Það hefur ekki verið auðvelt og í raun aldrei að vita hver fær veiruna næstur en með aðgát og góðum sóttvörnum getum við hvert og eitt lagt okkur fram í þeim málum. 

Mikið álag hefur verið á öllum stofnunum Snæfellsbæjar, grunnskóla, leikskóla, tónlistaskóla og Dvalarheimilinu Jaðri svo einhverjar stofnir séu sérstaklega nefndar.  Með samtakamætti hefur okkur tekist að veita þá þjónustu sem ætlast er til af okkur, en það hefur að sjálfsögðu kostað mikla vinnu allra og fyrir það er ég þakklátur og vil þakka öllum þeim sem að hafa komið.

Ekki er hægt að sleppa að nefna þá þolinmæði sem vistmenn á Jaðri og aðstandendur sýndu á árinu.  Það hefur ekki verið auðvelt að mega ekki í langan tíma hitta sína nánustu og svo að þurfa að sæta takmörkunum á heimsóknum.  Það þarf mikið þolgæði til að þola það og er ég stoltur af þeim öllum, takk fyrir ykkar þátt.

Það var því afar ánægjulegt að enda árið með því að fyrstu einstaklingarnir sem fengu bólusetningu við Covid - 19 í Snæfellsbæ voru vistmenn á Jaðri.  Jafnframt var það ánægjulegt að starfsfólk hjúkrunarheimila á Vesturlandi hafi verið valið Vestlendingur ársins og óska ég þeim innilega til hamingju með það.

Segja má að fram að þessu höfum við verið heppin með fjölda smita og vonandi verður það svo áfram á nýju ári.  Mikilvægt er að við pössum okkur áfram vel, virðum þær sóttvarnarreglur sem settar eru hverju sinni, því allt stefnir í að við náum að bólusetja alla landsmenn fyrir lok vors.

Að lokum varðandi COVID-19 þá er ekki hægt að fjalla um það án þess að minnast á þríeykið og stjórnvöld sem hafa staðið sig ákaflega vel í þessum faraldri.  Með mikilli fagmennsku hafa þau miðlað og biðlað til okkar og eiga þau stórt hrós skilið fyrir það.  Samtakamátturinn skiptir miklu máli og við sem þjóð höfum tekið þessu verkefni af mikilli alvöru og af því megum við vera stolt.

Annað sem einkenndi árið 2020 var fjöldi fjarfunda sem ég sat, ég held að þeir hafi skipt nokkrum hundruðum og voru stundum margir á dag.  En þó að fundirnir hafi verið margir á síðustu mánuðum þá held ég og vona að þessi þróun haldi áfram.  Tæknilæsi okkar flestra hefur tekið miklum framförum á árinu og auk fjarfunda á ýmsum sviðum hefur framboð á alls kyns námskeiðum, þjálfun og afþreyingu aukist til muna. Fyrir okkur á landsbyggðinni er þetta mikið framfaraspor og sparar mikinn tíma í ferðalög svo  ekki sé talað um kostnað sem fylgir ferðalögum.  Þessi breyting  hefur hrint okkur inn í veruleika sem mikilvægt er/var að nýta.

Vegna samkomutakmarkana var okkur boðið upp á fjölda tónleika í gegnum sjónvarp og aðra miðla sem ég naut mjög að hlusta á, því fallegur söngur og tónlistarflutningur gleður mig og marga aðra. Heimamenn lögðu þar hönd á plóg og skemmtu okkur m.a. fyrir jólin með skemmtilegum tónleikum. Nýjar leiðir voru reyndar til þjónustu,  verslanir settu upp netverslanir, veitingahús seldu „take away“,  og jólahappdrættin voru í beinni á netinu. Áramótabrennan var með öðru sniði en venjulega  vegna fjöldatakmarkana.  Var brugðið á það það ráð að vera með svokallaða „bílabrennu“, þ.e. að fólk myndi vera í bílum sínum og horfa á brennuna þar.   Brennan tókst frábærlega og  allir virtu sóttvarnareglur.

Allir lögðu sig fram um að láta hlutina ganga sem allra best á fordæmalausum tímum og fyrir það erum við þakklát.

Á árinu var töluvert um framkvæmdir á vegum Snæfellsbæjar og annarra aðila og ætla ég að fara yfir þær hér að neðan.

Á árinu var reist nýtt og glæsilegt hús á tjaldstæðinu á Hellissandi sem tekið verður í notkun í vor.  Þetta hús mun þjóna okkar gestum á tjaldstæðinu en mikill fjöldi ferðamanna dvelur þar ár hvert.

Farið var í endurnýjun á kaldavatnslögnum í Bárðarásnum á Hellissandi sem var töluverð framkvæmd.  Þetta var ein af þeim fáu götum sem var enn með gamla járnlögn sem komin var á tíma.  Um leið var tækifærið notað  og lögð voru ljósleiðararör í öll hús við götuna og í byrjun þessa árs ættu íbúar við götuna að geta fengið ljósleiðara til sín sem verður mikil bót.

Við settum af stað vinnu við að koma upp „fjarvinnslusetri“ í Röstinni á Hellissandi.  Bindum við miklar vonir við að með aðstöðu  þessari muni opnast   möguleikar fyrir fólk sem sinnir störfum án staðsetningar til að eiga sér vinnustað og samstarfsfólk. Auk þess opnast þar möguleikar fyrir frumkvöðla til að sinna nýsköpun og fyrir stafræna flakkara sem vilja dvelja hjá okkur í mislangan tíma og hafa aðstöðu til að vinna sína vinnu. Gert er ráð fyrir að opna þessa aðstöðu á vormánuðum.

Fengnir voru landslagsarkitektar til að halda áfram vinnu við að hanna gönguleiðir og útvistarsvæði á Hellissandi.  Með þessari vinnu verður auðveldara að taka ákvarðanir um næstu skref hvað þennan málaflokk varðar.

Haldið var áfram vinnu við nýja vatnsveitu fyrir Arnarstapa sem gert er ráð fyrir að lokið verði við á árinu 2021.  Nauðsynlegt er að auka vatnsþrýsting fyrir svæðið á Arnarstapa en þar  hefur verið mikil uppbygging á síðustu árum og mikil aukning ferðamanna. Við hönnun á vatnsveitunni á Arnarstapa er gert ráð fyrir að hægt verði að halda áfram til Hellna ef sú staða kemur upp að óskað verði eftir því að fá nýja vatnsveitu þangað.

Lagður var ljósleiðari milli Gufuskála og Hellissands og var þetta síðasti hlutinn sem eftir var í dreifbýli Snæfellsbæjar.  Styrkur fékkst í verkefnið frá Fjarskiptasjóði.

Keyptar voru varmadælur á Dvalarheimilið Jaðar sem settar verða upp á árinu en með þessari fjárfestingu er ætlunin að lækka kyndingarkostnað við heimilið.  Styrkur fékkst úr Orkusjóði fyrir þetta verkefni.

Farið var í töluverðar framkvæmdir í sundlaug Snæfellsbæjar í Ólafsvík á árinu og verður þeim haldið áfram á þessu ári og þá aðallega hlutum sem snúa að kyndingu laugarinnar.

Keypt var 400  fermetra geymsluhúsnæði fyrir áhaldahúsið við Ennisbraut en mikil nauðsyn var að fá meira húsnæði til að geyma ýmislegt sem fylgir starfseminni.  Með þessu verður hægt að farga eldra húsnæði sem bærinn á inni í Dal í Ólafsvík.

Byrjað var á framkvæmdum við endurbætur á Gilinu í Ólafsvík en þeim framkvæmdum líkur í vor.  Styrkur fékkst úr Ofanflóðasjóði við framkvæmdina.

Ráðinn var garðyrkjustjóri á árinu og var haldið áfram að snyrta og fegra sveitarfélagið og ætlum við að halda þeim verkefnum áfram eins og  við höfum verið að gera undafarin ár að snyrta og fegra sveitarfélagið okkar.

Í ljósi atvinnuástands í byrjun sumars vegna Covid-19 var tekin ákvörðun um að fjölga sumarstarfsmönnum verulega þetta árið og réðum við alla þá sem sóttu um sumarstarf hjá okkur.

Á vegum Hafnarsjóðs var farið í dýpkunarframkvæmdir í Ólafsvík og snemma  á þessu ári verður einnig farið í dýpkunarframkvæmdir í Rifshöfn.  Þær áttu að fara fram á liðnu hausti en vegna   anna hjá verktakanum þá tókst ekki að hefja þær á liðnu ári.

Haldið var áfram framkvæmdum við lengingu Norðurgarðs í Ólafsvík en garðurinn var lengdur um 80 metra sem auka á kyrrð innan hafnarinnar í Ólafsvík.  Gert var ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið fyrir áramót 2020 en ljóst er að þeim líkur ekki fyrr en í janúar á þessu ári.

Á vegum Hafnarsjóðs var haldið áfram  að snyrta og laga hafnarsvæðin.  Í Rifi voru steyptar gangstéttir á hafnarsvæðinu ásamt því að settir voru upp nokkrir ljósastaurar.  Einnig voru steyptir kantsteinar á höfnunum ásamt minni framkvæmdum.

Á Arnarstapa voru kláraðar dýpkunarframkvæmdir sem fólust m.a. í stækkun innra rýmis hafnarinnar verulega og er nú höfnin öll með 3 metra dýpi sem auðveldar mikið bátum að athafa sig innan hafnarinnar.

Farið var í sjóvörn á Marbakka í Staðarsveit sem lokið verður í janúar 2021 og hönnuð var sjóvörn vestan Gufuskála sem farið verður í á þessu ári og vonandi lokið í sumarbyrjun.  Sú sjóvörn verður sett upp m.a. til að verja fornminjar á svæðinu.

Nokkur fjölgun varð á komu skemmtiferðaskipa í Arnarstapahöfn á liðnu árinu og komu fimm skip en á árinu á á undan kom eitt skip.

Töluverður fjöldi Íslendinga kom til okkar í sumar og naut þeirra þjónustu sem á svæðinu er ásamt því að njóta okkar fögru náttúru.  Það var ánægjulegt að heyra í fólki sem kom á svæðið hversu ánægt það var með að koma og er það okkar metnaður að allir sem okkur heimsækja njóti dvalarinnar  á svæðinu.    

Framkvæmdir á Fróðárheiði voru á árinu á vegum Vegagerðarinnar sem lauk með því að bundið slitlag var sett á veginn í s.l. haust.  Þetta var síðasti kaflinn á leiðinni um Fróðárheiði sem ekki var kominn með bundið slitlag.  Nú á einungis eftir að leggja seinna slitlagið á veginn ásamt því að ganga frá meðfram veginum sjálfum.  Sú staðreynd að þessu verkefni sé lokið er mikið fagnaðaefni fyrir okkur en játa verður að það tók langan tíma að ljúka þessu bráðnauðsynlega verki.

Bundið slitlag og nýr vegur skiptir miklu máli fyrir íbúa Snæfellsbæjar og þá sem okkur sækja heim.  Vegurinn er innanbæjarvegur og ljóst er að þessi samgöngubót mun auðvelda okkur að sækja þjónustu og veita þjónustu á svæðinu sem við fögnum mjög.

Töluverðar framkvæmdir voru á árinu á vegum þjóðgarðsins og heldur hann áfram  að sanna gildi sitt fyrir okkar samfélag og svæðið allt hér á Snæfellsnesi.

Langþráð framkvæmd hélt áfram á vegum Þjóðgarðsins á árinu þegar hafnar voru byggingarframkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöðina, gert er ráð fyrir að þeim ljúki vorið 2022 en jarðvegsframkvæmdir hófust árið 2019.   Gerður var nýr útsýnispallur á Svalþúfunni og er hann góð viðbót við þá sem þar eru fyrir.  Farið var í það stóra verkefni að endurbæta göngustíginn á milli Arnarstapa og Hellna, mikið verk þar sem m.a. þurfti að nota þyrlu til að flytja efni í stíginn.  Haldið var áfram framkvæmdum á Malarrifi auk smærri framkvæmda innan þjóðgarðsins. 

Framkvæmdir hófust á vegum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga við  byggingu búsetukjarna fyrir íbúa með fötlun við Ólafsbraut í Ólafsvík. Þar eru byggðar 5  íbúðir  sem teknar verða í notkun í lok árs 2021.  Þetta er mjög mikilvæg framkvæmd en í dag eru engar slíkar íbúðir til staðar á Snæfellsnesi.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð en verulega tók á vegna COVID-19, bæði varð kostnaður meiri en gert var ráð fyrir og jafnframt minnkuðu tekjur.  Sú staðreynd  að bæjarsjóður stóð vel  mun hjálpa okkur í gegnum þessa djúpu fjárhagslegu kreppu.  Í upphafi árs var get ráð fyrir lántöku að upphæð 100 milljónir en staðreyndin var sú að teknar voru 220 milljónir að láni á árinu.  Rétt er þó að geta þess að hluti af aukinni lántöku var notaður til að greiða upp óhagstæð eldri lán. 

Íþróttastarfið í sveitarfélaginu einkenndist af þeirri stöðu sem COVID-19 setti á samfélagið og hefur það sjaldan verið eins og á liðnu ári.  M.a. var ekki hægt að klára Íslandsmótið í knattspyrnu sem segir margt um stöðuna á þessu ári.  Nú vonum við að nýtt ár verði okkur betra og að allir sem stunda íþróttir geti farið á fullt í byrjun sumars.

Árið var mér sjálfum gott, þrátt fyrir mikið minni samskipti við fjölskyldu og vini.  Ég naut þess að ganga um okkar fögru náttúru, fór á nokkur fjöll, m.a fjöll sem ég hafði horft á undanfarna áratugi út um eldhúsgluggann og var það góð upplifun.  Það er gott að búa við þá fjölbreyttu náttúru sem við búum við og kunni maður að meta þessi forréttindi sem aldrei fyrr.  Eigið fé mitt jókst mikið á árinu og nú á ég orðið fimm kindur sem ég hef mikla ánægju af.

Samstarf innan bæjarstjórnar var afar gott eins og undanfarin ár og mikil samstaða um þau stóru verkefni sem fyrir lágu á árinu.  Eins stóðu starfsmenn Snæfellsbæjar sig með miklum ágætum í þessum erfiðu aðstæðum á árinu og erum við heppin að hafa á að skipa afar hæfum starfsmönnum.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs árs og þakka samstarfið á liðnum árum, megi árið 2021 verða okkur öllum farsælt og vonandi mun bóluefnið breyta okkar lífi þannig að við getum farið að eiga eðlileg samskipti okkar á milli á árinu.

Langar mig um leið og ég þakka ykkur öllum fyrir öfluga samstöðu á liðnu ári að enda þennan áramótapistil með kvæði eftir Halldór Laxness sem heitir „Bráðum kemur betri tíð“ (tek fram að stafsetningin er skáldsins).

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga,
sæta lánga sumardaga.

Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi,
einkum fyrir únga dreingi.

Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.

 

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri.