UNESCO Vistvangur á Snæfellsnesi - spurningar og svör

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa samþykkt með formlegum hætti að íslenska ríkið sæki um að Snæfellsnes verði UNESCO Vistvangur (Man and Biosphere svæði). Um er að ræða það landsvæði sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa skipulagsvald yfir.

Meginmarkmið UNESCO Vistvangs er að samþætta verndun umhverfis- og náttúruauðlinda við sjálfbæra þróun samfélögum til góða.

Haldnir voru opnir kynningarfundir víðsvegar um Snæfellsnes, en þrátt fyrir það virðist gæta misskilnings meðal einhverra íbúa um verkefnið.

Sveitarstjórnum á Snæfellsnesi barst nýlega bréf nokkurra landeigenda á svæðinu og mun hér verða leitast við að svara þeim spurningum sem þar koma fram og reyna þar með að koma í veg fyrir frekari misskilning og losa landeigendur undan frekari áhyggjum vegna þessa.

Fyrst er að nefna að það verður engin breyting á eignarrétti landeigenda þó að Snæfellsnes verði UNESCO Vistvangur. Sveitarfélög hafa áfram skipulagsvald og íslensk lög gilda.

UNESCO Man and Biosphere, á íslensku Vistvangur, er verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þar er unnið eftir samfélagssáttmála milli atvinnulífs, íbúa og stjórnsýslueininga. Um er að ræða vettvang fyrir miðlun þekkingar og fræðslu um náttúruvernd, sjálfbæra nýtingu auðlinda og samfélagslega þáttöku. Sýna þarf fram á stjórnunaráætlun, svæðisskiptingu, breiða þátttöku samfélagsins og áætlun um fræðslu og rannsóknir. Áhersla er á sérstöðu, vilja heimamanna og samfélag á viðkomandi stað.

Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi hér á Snæfellsnesi frá árinu 2021 og margir fundir hafa verið haldnir auk þess sem kynningarefni hefur verið gert aðgengilegt á rafrænum miðlum Svæðisgarðsins. Sérstök heimasíða er um verkefnið þar sem safnað hefur verið saman upplýsingum og veitt svör við öllum spurningum sem hafa borist. Bendum við sérstaklega á eftirfarandi upptöku á Youtube.

Spurningar og svör:

Hvaða eignarréttarlega breyting verður á landi í einkaeign ef umsókn verður samþykkt og er eignarréttarlegur munur innan þessara þriggja svæða sem eru innan fyrirhugaðs vistvangs á Snæfellsnesi?

Það verður engin eignarréttarleg breyting á landi í einkaeign ef umsóknin verður samþykkt.

  • Á kjarnasvæði, í okkar tilfelli hluta af Snæfellsjökulsþjóðgarði, er gerð krafa um að land sé þegar friðlýst skv. lögum viðkomandi lands.
  • Á grenndarsvæði, í okkar tilfelli hluta af Snæfellsjökulsþjóðgarði og friðlandinu í Búðahrauni, er áhersla á sjálfbæra þróun og nálægt við verndarsvæðið.

  • Á athafnarsvæðinu, í okkar tilfelli öðru því landi sem tilheyrir einhverju af þeim fjórum sveitarfélögum sem eru á Snæfellsnesi, þarf að vera samvinna um sjálfbæra þróun þar sem íbúar vinna saman, á sínum forsendum, að því að gera gott svæði enn betra til búsetu. 

Má gera ráð fyrir breytingu á heimild landeigenda til landnýtingar á eigin landi ef umsókn verður samþykkt, t.d. á hlunnindum jarða s.s. laxeldi, vatnsnotkun, malartekju o.s.frv.?

Nei, engar slíkar breytingar verða vegna verkefnisins.

Má gera ráð fyrir breytingum á svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi sveitarfélaganna? Verða settar takmarkanir á landeigendur varðandi breytta landnýtingu, t.d. hvað varðar vatnsaflsvirkjanir, virkjun vindorku, skipulag frístundabyggða, uppbyggingu afþreyingarmöguleika, gistingar, o.fl.?

Nei, sveitarfélögin hafa áfram fullt skipulagsvald á sínum svæðum og engra breytinga er þörf þó umsókn verði samþykkt.

Hvað þýðir sjálfbærni hjá UNESCO og hvernig hefur hún áhrif á atvinnulífið á Snæfellsnesi?

Sjálfbærni hefur lengi verið leiðarstef í atvinnulífi á Snæfellsnesi. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa s.l. 14 ár fengið óháða alþjóðlega umhverfisvottun fyrir frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum. Árlega samþykkja sveitarfélögin á Snæfellsnesi sameiginlega stefnu um sjálfbæra þróun, sem staðfestir markmið sveitarfélaganna (sjá m.a. á heimasíðu Umhverfisvottunar á Snæfellsnesi).

Verður öll netaveiði í vötnum og ám bönnuð?

Nei.

Verður að sleppa öllum fiski í stangveiði?

Nei.

Verður ræktun á nýju landi bönnuð?

Nei.

Verða allar námur, t.d. sand- og malarnámur, lokaðar?

Nei.

Mega landeigendur nota tilbúinn áburð á tún sín?

Já.

Geta rekstraraðilar í landvinnslu átt von á takmörkun varðandi starfsemi sína?

Nei.

Hefur farið  fram kostnaðargreining fyrir landeigendur og sveitarfélög á rekstri Vistvangsins og hver er áætlaður aukinn kostnaður landeigenda ef umsókn hefur verið samþykkt?

Það hefur verið gerð kostnaðargreining fyrir fyrirhugaðan Vistvang og það er ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði sveitarfélaganna við fyrirhugaða breytingu; frá því að reka Svæðisgarð í að reka Vistvang.

Hafa sveitarstjórnir heimild til að sækja um að einkalönd verði innan Vistvangs UNESCO án vitundar og/eða samþykkis landeigenda?

Já, sveitarstjórnir hafa þá heimild, enda verða engar breytingar á eignarhaldi, eignarrétti, eða nýtingu eigenda landa og jarða við aðila að UNESCO Vistvangi.

Geta einstaka landeigendur ákveðið að vera ekki með í verkefninu og ef verið er með í upphafi, er hægt að hætta þátttöku í verkefninu?

Nei.

Hvaða leiðir eru færar fyrir landeigendur til að koma á framfæri mótmælum við umsókn og/eða þátttöku í umsókninni?

Í spurningunni kemur fram sá misskilningur að um sé að ræða aukna friðun á landi og að UNESCO muni með einhverjum hætti hafa áhrif á not landeigenda á Snæfellsnesi á sínum jörðum. Svo er ekki.

Að lokum viljum við undirstrika að það er einlægur vilji þeirra sem að þessu verkefni standa, að það verði til góðs fyrir framþróun og nýsköpun á Snæfellsnesi. Ef eitthvað breytist í forsendum og það verður niðurstaða lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Snæfellsnesi að verkefnið þjóni ekki hagsmunum Snæfellinga, þá verður einfaldlega hægt að hætta þátttöku í því.

Að sama skapi er ljóst að uppfylli Snæfellingar ekki þær kröfur sem gerðar eru til þátttakenda í Vistvangsverkefninu, verður okkur vísað úr því.

Það er því ekki verið að taka neina áhættu. Samfélagið á Snæfellsnesi er nógu gott til að standast þær kröfur sem gerðar eru til þátttakenda í alþjóðlegu tengslaneti Vistvanga UNESCO, náttúru- og menningararfur er líka óvíða meiri. Við sem að þessu verkefni stöndum viljum gera gott betra og teljum verkefnið skapa tækifæri fyrir þá sem vilja nýta sér þau. Verkefnið verður ekki hamlandi fyrir íbúa, fyrirtæki eða sveitarfélög heldur næsta skref í þeirri vinnu sem Snæfellingar hafa verið að vinna, á sínum forsendum, í margvíslegri samvinnu, með sjálfbærni að leiðarljósi.