Uppbygging ljósleiðara í þéttbýli Snæfellsbæjar

Í vikunni hófst vinna við uppbyggingu ljósleiðara í þéttbýli Snæfellsbæjar.

Framkvæmdin er samstarfsverkefni Snæfellsbæjar, Mílu og Fjarskiptasjóðs og tengist áformum um að klára ljósleiðaravæðingu heimila í þéttbýli, en áður hefur ljósleiðari verið lagður í dreifbýli Snæfellsbæjar.

Samstarfsverkefnið felur í sér að öll heimili í Snæfellsbæ muni eiga kost á ljósleiðara. Verkefnið er umfangsmikið og felur í sér tengingu við rúmlega 300 heimili í Ólafsvík, á Hellissandi og Rifi. Í fyrsta áfanga er unnið við uppbyggingu ljósleiðara á Rifi, því næst Hellissandi og að lokum Ólafsvík. Gert er ráð fyrir að verkefni ljúki í síðasta lagi árið 2026.