Upplýsingapóstur frá bæjarstjóra, 16. mars 2020
16.03.2020 |
Fréttir, Covid-19
Kæru íbúar,
aðfaranótt mánudagsins 16. mars tók í gildi samkomubann vegna COVID-19. Það er margt sem þarf að hafa í huga í þessu sambandi varðandi þjónustu sveitarfélagsins og hafa stjórnendur og starfsfólk unnið hörðum höndum að því að undirbúa viðbrögð við samkomubanninu. Það er ánægjulegt að sjá samhuginn í samfélaginu og það hversu samfélagslega þenkjandi fólk er. Við erum, eftir allt saman, öll Almannavarnir.
Ljóst er að starfsemi og þjónusta sveitarfélagsins verður með breyttu sniði næstu fjórar vikurnar. Allt skipulag skólahalds sveitarfélagsins miðast að því að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum yfirvalda um samkomubann. Breytingar á starfsemi sveitarfélagsins geta skollið á með stuttum fyrirvara og verða þá tilkynntar á heimasíðu sveitarfélagsins eða beint frá þeim stofnunum eða einingum sem við á.
Allir íbúar eru hvattir til að leita almennra upplýsinga um faraldurinn og viðbrögð við honum inni á www.covid.is – þar er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar sem gilda næstu fjórar vikurnar. Sérstaklega bendum við fólki á að kynna sér hvaða reglur gilda ef það þarf að fara í sóttkví og fara eftir þeim í einu og öllu.
Helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið í Snæfellsbæ á þessum tíma eru þessar:
Leikskólarnir, Kríuból og Krílakot, verða opnir frá 8:00 - 16:00 næstu fjórar vikur eftir því sem aðstæður leyfa, en starfsemi og leikskólahaldið sjálft verður með öðru sniði sem kynnt var fyrir foreldrum með bréfi leikskólastjóra í dag, mánudaginn 16. mars.
Grunnskólar verða opnir eins og hægt er.
-
Í Lýsuhólsskóla verður skólahald óbreytt að mestu og jafnframt verður leikskólaselið starfandi, en passað verður upp á að nemendahópar skarist ekki.
-
Skólahald í Ólafsvík og á Hellissandi hefst á sama tíma og vanalega, en foreldrar eru beðnir um að fylgjast vel með skilaboðum frá skólastjórnendum varðandi móttöku barna á morgnana. Börn skulu mæta á sérstakar safnstöðvar og þangað sækja kennarar þau. Við leggjum áherslu á að börn mæti ekki of snemma og að tekið verði tillit til þeirra tímasetninga sem skólastjórnendur senda út. Skólalok í 1. – 7. bekk verða hefðbundin, en skóli hjá unglingastiginu styttist og verða skólalok hjá 8. – 10. bekk á sama tíma og hjá miðsstiginu.
-
Örbylgjuofnar, grill og katlar verða teknir úr notkun og er þeir sem senda börnin sín með nesti beðin um að taka tillit til þess. Jafnframt verða vatnsvélar og mjólkurvélar ekki notaðar og börn beðin um að taka með sér vatn í brúsa ef þau ætla sér að drekka vatn í skólanum.
Skólaakstur verður með breyttu fyrirkomulagi og verða aldrei fleiri en 20 nemendur í bíl.
Þetta verður fyrirkomulagið þar til annað verður ákveðið. Við viljum biðja foreldra um að sýna biðlund. Þetta er fordæmalaust ástand og það þarf eflaust að sníða einhverja annmarka af.
-
Við viljum benda foreldrum á að allar ábendingar um bætt fyrirkomulag eru vel þegnar í tölvupósti til skólastjóra á hilmar@gsnb.is
-
FORELDRAR/FORRÁÐAMENN: vinsamlegast fylgist vel með öllum skilaboðum frá skólanum, en upplýsingar, m.a. um tímasetningar og safnsstaði verða sendar út í kvöld.
Tónlistarkennsla mun verða óbreytt að svo stöddu.
Um allt skólahúsnæði Snæfellsbæjar gildir sú meginregla að heimsóknir eru bannaðar. Engum óviðkomandi, þ.e. öðrum en nemendum, kennurum og starfsfólki, verður hleypt inn í starfsstöðvarnar.
Sundlaug Snæfellsbæjar verður opin þessa vikuna frá kl. 7:30 – 9:00 og aftur seinni partinn frá kl. 17:00 – 21:00. Aldrei fleiri en 20 fá að fara inn í einu og verður talið inn. Við biðlum til fólks að sýna tillitssemi og halda öruggri fjarlægð í búningsklefum.
Íþróttahús Snæfellsbæjar verður að einhverju leyti nýtt fyrir grunnskólann sem safnstöð og fyrir frímínútur. Að öðru leyti verður það opið fyrir eldri borgara til hreyfingar og til að stunda boccia. Búningsklefar verða lokaðir. Engar íþróttir verða í húsinu á vegum grunnskólans, né heldur sund.
ÍSÍ hefur gefið það út að engar íþróttaæfingar yngri barna verði vikuna 16. – 23. mars, og mun það verða virt í Snæfellsbæ.
Í athugun er hvort, og þá hvernig, hægt verður að útfæra opnun á félagsmiðstöðinni Afdrep. Upplýsingar um þetta er að vænta á morgun, þriðjudaginn 17. mars.
Félagsstarf eldri borgara í Klifi fellur niður næstu fjórar vikurnar. Enn sem komið er geta eldri borgarar komið saman í íþróttahúsinu til að hreyfa sig, og hvetjum við eindregið til þess að þeir nýti sér það, þó þeir geri sitt besta til að halda skynsamlegri fjarlægð. Jafnframt munu boccia tímar í íþróttahúsi og handavinna eldri borgara halda áfram tiltölulega óbreytt að svo stöddu. Er þetta allt gert í góðri samvinnu við Félag eldri borgara í Snæfellsbæ, og með það að leiðarljósi að hreyfing og félagsskapur er eitthvað sem allir þurfa á að halda.
Á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Jaðri er heimsóknarbann, en að öðru leyti er starfsemin þar með venjulegu sniði.
Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga fylgir ákvörðunum stjórnvalda og stofnanna frá degi til dags. Allir þjónustuþættir þar eru virkir. Hins vegar eru dagþjónusturnar Ásbyrgi í Stykkishólmi og Smiðjan í Ólafsvík, einungis opnar skjólstæðingum og starfsfólki. Við óskum eftir því að heimsóknarbann sé virt.
Á öðrum stofnunum Snæfellsbæjar er reynt að halda úti venjulegri starfsemi eins og hægt er, þ.e. í Ráðhúsinu, á höfnunum, í Áhaldahúsinu, bókasafninu og í slökkvistöðinni. Við viljum samt fara fram á það við fólk að halda heimsóknum á þessa staði í lágmarki og vera einungis á ferðinni ef brýna nauðsyn ber til. Reynum að nýta okkur síma og tölvupóst eins og hægt er.
Við ítrekum það að fólk fylgist vel með heimasíðum, facebooksíðum og tölvupósti til að fá nýjustu fréttir hverju sinni.
Gleymum ekki að lifa, brosum, sýnum umburðarlyndi og þolinmæði og verum eins hvetjandi og við getum í þessum fordæmalausu aðstæðum.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri