Útfærsla á skólastarfi í grunnskóla Snæfellsbæjar til 17. nóvember

Meðfylgjandi er fréttabréf frá skólastjóra vegna útfærslu á skólastarfi í grunnskóla Snæfellsbæjar til og með 17. nóvember:
Þá hefur reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar litið dagsins ljós. Takmörkun á skólastarfi tekur gildi frá og með 3. nóvember 2020 og gildir til og með 17. nóvember 2020. Markmið með reglugerðinni er að tryggja að sem minnst röskun verði á skólastarfi vegna COVID-19 sjúkdómsins með ýtrustu sóttvarnarsjónarmið að leiðarljósi.
Við í skólanum notuðum daginn til aðlaga skólastarfið að kröfum reglugerðarinnar. Það helsta er að um nemendur í 5.–10. bekk gildir 2 metra nálægðartakmörkun en ef víkja þarf frá henni ber nemendum að nota grímu. Það sama gildir um starfsfólk. Þessi regla gildir í öllu skólastarfi, í skólabíl, kennslustundum og frímínútum. Nemendur í 1.–4. bekk eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu.
Þessi regla verður kynnt vel fyrir nemendum í fyrramálið, eins hvernig nota eigi grímuna. Þeim nemendum sem eiga grímur er velkomið að koma með þær og nota í skólanum, annars leggur skólinn nemendum til einnota grímur.
Helstu atriði eru:
  • Engin breyting á akstri skólabíla. Fjöldatakmarkanir gilda almennt ekki um almenningssamgöngur og hópbifreiðar og því er skólaakstur undanskilinn reglunni um hámarksfjölda, sbr. 5. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1051/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Nemendur í 5.-10. bekk og fullorðnir þurfa að bera grímur en grímuskylda er ekki á börnum í 1.-4. bekk. Leitast skal við að halda sem mestri fjarlægð og kostur er og huga vel að hreinlæti og sóttvörnum í skólabílum.
  • Skólastarf í Lýsuhólsskóla er að mestu óbreytt utan þess að fyrir nemendur í 5.–10. bekk gildir 2 metra nálægðartakmörkun en ef víkja þarf frá henni ber nemendum að nota grímu.
  • Nemendur í 5. - 10. bekk fara beint inn í stofur þegar þeir mæta í skólann að morgni.
  • Nemendur mæti með vatnsbrúsa, þeir sem það kjósa.
  • Íþróttir og sund fellur niður, þess í stað verður útivist. Nemendur þurfa að koma klæddir eftir veðri.
  • Skólabær verður opinn eins og áður. Nemendur í 1. bekk eru sér og nemendur í 2. og 3. bekk sér.
  • Nemendur sem koma með nesti hafa ekki aðgang að örbylgjuofnum.
Ef eitthvað kann að orka tvímælis eða er óljóst er fólki velkomið að senda skólastjóra tölvupóst á netfangið hilmara@gsnb.is. Ljósmynd: Fimmti bekkur syngur fyrir utan Jaðar þann 2. apríl 2020.