Úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði

Í gær var úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands haldin í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Styrkir eru veittir til menningarverkefna og atvinnu- og nýsköpunarverkefna og að þessu sinni var úthlutað um 47 milljónum í 82 verkefni. Úthlutunarhátíðin gekk vel fyrir sig og léku þau Valentina, Evgeeny og Stefanía frá Tónlistarskóla Snæfellsbæjar fyrir gesti.

Fjölmörg verkefni í Snæfellsbæ fengu styrkveitingu að þessu sinni eins og sjá má hér að neðan:

  • Sjóminjasafnið hlaut tvo styrki vegna fyrirhugaðra sýninga;
  • Átthagastofa hlaut þrjá styrki - vegna Fjölmenningarhátíðar, fyrir skráningu safnmuna og vegna áframhaldandi endurhleðslu fjárréttar í Ólafsvík í umsjón Guðrúnar Tryggvadóttur;
  • Karlakórinn Heiðbjört í Staðarsveit, Kirkjukór Ólafsvíkur og Karlakórinn Kári hlutu styrk fyrir kórastarfi;
  • Menningarsjóðurinn undir Jökli hlaut styrkveitingu vegna tveggja verkefna, annars vegar fyrir Hellnakirkju og hins vegar vegna tónleikaraðar;
  • Slysavarnardeildin Helga Bárðar hlaut styrk til að ljúka við endurbætur á styttunni Jöklarar sem er í Sjóminjagarðinum á Hellissandi;
  • Adela Marcela Turloiu hlaut styrk til að halda áfram með Snæfellsnesspilið;
  • Guðni Þorberg hlaut styrkveitingu vegna sýningar um Axlar-Björn sem fyrirhugað er að setja upp í Samkomuhúsinu á Stapa;
  • Frystiklefinn hlaut tvo styrki, annars vegna vegna fyrirhugaðrar götulistahátíðar á Hellissandi og hins vegar fyrir nýja leiksýningu sem frumsýnt verður í sumar;
  • Jóhann Már Þórisson hlaut styrk fyrir handverk úr heimabyggð.

     

Þá má einnig nefna að önnur verkefni sem tengjast Snæfellsbæ með einum eða öðrum hætti hlutu einnig styrkveitingu, t.d. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes, kvikmyndahátíðin Northern Wave Film Festival sem haldin er í Rifi og samlistasýningin Umhverfing sem verður á haldin á Snæfellsnesi í sumar.