Varðandi kórónaveirufaraldurinn og hertar sóttvarnarreglur frá 20. október
Tölur um ný smit annars vegar og tölur um fjölda í sóttkví hins vegar gefa til kynna að árangur sé að hafast í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn í þessari þriðju bylgju. Það hefur einungis gerst vegna samstöðu þjóðarinnar í að fylgja þeim reglum, leiðbeiningum og tilmælum sem hafa verið í gildi.
Við höfum verið lánsöm hér í Snæfellsbæ og ekkert smit hefur greinst hjá okkur síðan undir lok júlímánaðar. Það er gott og þannig viljum við hafa það. Eru íbúar því hvattir til að fylgja nýjustu reglum yfirvalda í hvívetna. Í okkar samfélagi verður tveggja metra reglan skilyrði og grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga.
Sóttvarnalæknir mælti með því við heilbrigðisráðherra í minnisblaði sínu að aðgerðirnar standi yfir næstu tvær til þrjár vikurnar.
Þrátt fyrir að smitum hafi farið fækkandi á landinu er of skammur tími liðinn til þess að hrósa sigri. Viðbúið er að í komandi viku og þeirri næstu gæti álag á heilbrigðiskerfið farið vaxandi. Því er áríðandi að við höldum áfram að tryggja einstaklingsbundnar smitvarnir. Það er að þvo og sótthreinsa hendur oft og reglulega, virða fjarlægðarmörk sem eru í gildi og nota grímu þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra á milli fólks.