Vatnshellir einstök upplifun að mati Conde Nast
Ferðatímaritið Conde Nast fjallaði nýverið um einstaka upplifun sem finna má á Íslandi og nefndi Vatnshelli sérstaklega til leiks sem upplifun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara á ferð sinni um Ísland.
Vatnshellir er fimm til átta þúsund ára gamall hraunhellir í suðurhlíðum Purkhólahrauns. Hellirinn er um það bil 200 metra langur og hefur aðgengi að honum verið bætt á undanförnum árum, t.a.m. með hringstiga sem liggur niður í hellinn og þjónustuhúsi þangað sem gestir mæta.
Eins og segir í umfjöllun Conde Nast krefst ferð í hellinn leiðsagnar þar sem auðvelt er að villast eða slasast í þessum forna helli sem margrómaður sé fyrir litríka hraunveggi. Þá er nærumhverfi Vatnshellis einnig sérstaklega nefnt sem ástæða þess að enginn ætti að láta hann fram hjá sér fara, og skal engan undra, enda staðsettur innan Snæfellsjökulsþjóðgarðs nærri fjölmörgum náttúruperlum.
Hér má lesa umfjöllunina á vefsíðu Conde Nast Traveler. Ljósmynd: Þröstur Albertsson