Við áramót - nýárspistill bæjarstjóra
Hér má lesa nýárspistil bæjarstjóra, en hann birtist að vanda í fyrsta tölublaði ársins af bæjarblaðinu Jökli.
--
Ágætu lesendur Jökuls, eins og löng hefð er orðin fyrir, mun ég í nokkrum orðum fara yfir nýliðið ár í Snæfellsbæ.
Það er óhætt að segja að COVID hafi sett sterkan svip sinn á árið 2021 líkt og árið 2020. Munurinn er sá að menn fylltust bjartsýni þegar farið var í það að bólusetja fólk til að verja það fyrir þessari skæðu veiru á vormánuðum og svo aftur í lok ársins þegar boðið var upp á örvunarbólusetningu til enn frekari varna. Vonbrigðin hafa því verið mikil þegar veiran hefur tekið upp á því að stökkbreytast og flækja málin ítrekað. Að takast á við faraldur eins og COVID er ekki auðvelt en það er gott að vita að kerfið okkar virkar og allir eru að gera sitt allra besta þegar við þurfum að fara í verkefni sem þetta.
Það er ljóst að baráttunni við veiruna er hvergi lokið og sjá má fordæmalausar smittölur á landinu þessa dagana. Það er því mikilvægt að við leggjum okkur öll fram um að verja okkur með því að huga að persónulegum sóttvörnum, þvoum og sprittum, notum grímur og höldum fjarlægð. Þessi glíma er orðin löng og þreytandi en við höfum því miður ekkert val hvað það varðar.
Það að geta ekki átt „eðlileg“ samskipti við fólk getur og hefur reynt á marga. Sérstaklega hef ég samúð með unga fólkinu sem ekki getur notið þess að skemmta sér frjálst og óheft, maður man sjálfur hvað unglingsárin voru magnaður tími.
Við í Snæfellsbæ höfum þurft að aðlaga okkur að þessum veruleika og verð ég að segja að það er alveg ótrúlegt hvað allir hafa lagt sig fram í þeim efnum. Mikið álag hefur verið allt árið hjá öllum stofnunum/starfsmönnum sveitarfélagsins og vil ég nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Snæfellsbæjar fyrir þeirra góðu vinnu við þessar erfiðu aðstæður. Einnig vil ég þakka þjónustuaðilum í sveitarfélaginu fyrir þeirra góðu vinnu því það vill oft gleymast að þau eru einnig undir miklu álagi í sínum störfum.
Þrátt fyrir erfiða stöðu þá fengum við smá pásu frá óværunni í sumar og gátum komið saman utanhúss á hátíðisdögum. Við vorum líka heppin að geta fagnað saman Ólafsvíkurvöku í dásamlegri blíðu í byrjun júlí sem var kærkomin tilbreyting fyrir unga sem aldna.
Áramótabrennan var með öðru sniði en venjulega vegna fjöldatakmarkana annað árið í röð. Var brugðið á það það ráð að vera með svokallaða „bílabrennu“, þ.e. að fólk myndi vera í bílum sínum og horfa á brennuna þar. Brennan og flugeldasýningin tókust frábærlega og allir virtu sóttvarnareglur.
Eins og undanfarin ár var töluvert um framkvæmdir á vegum Snæfellsbæjar og annarra aðila og ætla ég að fara yfir þær hér að neðan.
Í júní var tekið í notkun nýtt tjaldstæðishús á tjaldstæðinu á Hellissandi. Mikil ánægja er með þetta nýja hús og aðstöðuna alla og fékk tjaldstæðið afar góða dóma hjá þeim er það sóttu í sumar. Þess má geta að mjög góð aðsókn var á tjaldstæðin í sumar og komu ríflega 10.000 gestir til okkar sem verður að teljast afar gott í því ástandi sem nú er.
Tekið var í notkun „fjarvinnslusetur“ í Röstinni á Hellissandi sem strax fékk góðar viðtökur. Bindum við miklar vonir við að með aðstöðu þessari muni opnast möguleikar fyrir fólk sem sinnir störfum án staðsetningar til að eiga sér vinnustað og samstarfsfólk. Auk þess opnast þar möguleikar fyrir frumkvöðla til að sinna nýsköpun og fyrir stafræna flakkara sem vilja dvelja hjá okkur í mislangan tíma og hafa aðstöðu til að vinna sína vinnu.
Miklar malbiksframkvæmdir voru í sumar í öllum þéttbýliskjörnum Snæfellsbæjar. Þar voru götur endurnýjaðar með því að setja malbik á þær sem er mikil breyting frá því sem áður var. Þetta er þriðji áfanginn í því verkefni að setja malbik á allar götur sveitarfélagsins og áður en langt um líður ætti okkur að takast að klára það verkefni. Við þurfum að fara í efnisskipti í nokkrum götum áður en það tekst en vonandi verður hægt að fara í það mjög fljótlega.
Við héldum áfram að lengja útivistarstíginn okkar sem liggur frá Ólafsvík að Hellissandi og nú í sumar var tekinn áfangi fyrir neðan Keflavíkurgötu sem tókst afar vel með og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim sem hann nota.
Á árinu fengust tveir styrkir frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, annar til að bæta aðgengi að Svöðufossi og hinn til að bæta aðgengi við styttuna af Bárði-Snæfellsás. Verkefnið á Arnarstapa er liður í mun stærri framkvæmd sem vonandi verður hægt að fara í á næstu árum ef til þess fæst frekara fjármagn. Vonumst við til að þessum framkvæmdum ljúki á vormánuðum 2022.
Lokið var í desember vinnu við nýja vatnsveitu fyrir Arnarstapa. Nauðsynlegt var að auka vatnsþrýsting fyrir svæðið á Arnarstapa en þar hefur verið mikil uppbygging á síðustu árum og mikil aukning ferðamanna. Við hönnun á vatnsveitunni á Arnarstapa er gert ráð fyrir að hægt verði að halda áfram til Hellna ef sú staða kemur upp að óskað verði eftir því að fá nýja vatnsveitu þangað. Þetta verkefni hefur tekið nokkur ár að framkvæma, fyrst þurfti að finna stað til að sækja vatnið, fara síðan í mælingar á vatnsmagninu, láta skoða gæði vatnsins, búa til vatnsbólið og að lokum að leggja nýja vatnslögn frá vatnsbólinu að dreifikerfinu á Arnarstapa.
Á árinu var bætt við varmadælu fyrir sundlaugina í Ólafsvík með það að markmiði að minnka þá raforku sem þarf til að kynda upp sundlaug og potta.
Sett voru upp ný leiktæki á leiksvæðum og leikvöllum í Snæfellsbæ og óhætt er að segja að þeim hafi verið afar vel tekið af ungu kynslóðinni.
Í lok ársins var lokið við endurbætur á Gilinu í Ólafsvík, en þær framkvæmdir fólust m.a. í því að breikka Gilið neðst og setja upp grjótvörn beggja vegna Gilsins.
Hafist var handa við að endurnýja ljósabúnað í götuljósum sveitarfélagsins en það mun taka nokkur ár. Verkið felst í því að skipta út eldri ljósum og setja upp mun sparneytnari led lýsingu. Þetta er enn einn liðurinn hjá sveitarfélaginu í orkusparnaði.
Árið var gott hjá Hafnarsjóði Snæfellsbæjar og var landað þar tæpum 36.000 tonnum sem er með því mesta sem landað hefur verið.
Á vegum Hafnarsjóðs voru kláraðar dýpkunarframkvæmdir í Ólafsvík og í Rifi á árinu og tókust þær framkvæmdir vel.
Á vordögum var lokið við lengingu Norðurgarðs í Ólafsvík en garðurinn var lengdur um 80 metra sem auka á kyrrð innan hafnarinnar í Ólafsvík. Þessi framkvæmd tókst afar vel og hefur kyrrð innan hafnarinnar aukist mikið eftir að garðurinn var lengdur.
Á vegum Hafnarsjóðs var haldið áfram að snyrta og laga hafnarsvæðin. Í Rifi voru steyptar gangstéttar á hafnarsvæðinu ásamt því að settir voru upp nokkrir ljósastaurar.
Í Ólafsvík hófust framkvæmdir við nýtt stálþil á Norðurtanga en framkvæmdin felst í því að reka niður nýtt stálþil og steypa nýja þekju. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við verkið muni ljúka haustið 2022.
Á Norðurgarðinum í Ólafsvík var farið í að endurnýja vatn og rafmagn á bryggjunni ásamt því að byggja nýtt masturshús sem tekið verður í notkun á vormánuðum 2022. Rafmagnshluti verkefnisins er hluti af verkefni sem heitir Orkuskipti í íslenskum höfnum.
Lokið var við sjóvörn á Marbakka í Staðarsveit. Einnig var farið í sjóvörn við Gufuskála sem lauk á haustmánuðum en sú framkvæmd fólst m.a. í því að verja fornminjar á svæðinu.
Á vegum Vegagerðarinnar var farið í stórt verkefni við Ólafsbraut í Ólafsvík sem fólst í endurgerð á sjóvörn við götuna, verkið fólst í því að varanagarðurinn var bæði hækkaður og breikkaður og bindum við vonir við að aldan sem kom yfir áður geri það ekki lengur við þessa breytingu.
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull átti 20 ára afmæli í sumar og var því fagnað á Malarrifi í lok júní. Töluverðar framkvæmdir voru á árinu á vegum þjóðgarðsins, ásamt því sem þjóðgarðurinn var stækkaður til austurs í átt að Hellissandi og að Búrfelli. Mikilvægi þjóðgarðsins fyrir okkar svæði er mikið og heldur hann áfram að sanna gildi sitt fyrir okkar samfélag og svæðið allt hér á Snæfellsnesi.
Framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöðina á Hellissandi gengu vel á árinu og er húsið að verða fullbúið að utan nú um áramótin. Byggingin er afar fögur og verð ég að viðurkenna að hún sem slík hefur komið mér verulega á óvart og grunar mig að þegar fram í sækir muni fjöldi gesta koma m.a. til að líta augum þessa fallegu byggingu. Gert er ráð fyrir að smíði þjóðgarðsmiðstöðvarinnar verði lokið á vordögum og hlakka ég mjög til að fá þessa byggingu í notkun.
Framkvæmdum á vegum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga við byggingu búsetukjarna fyrir íbúa með fötlun við Ólafsbraut í Ólafsvík lauk nú í lok ársins og var húsið formlega vígt þann 14. desember. Í húsinu eru 5 glæsilegar íbúðir sem teknar verða í notkun í upphafi ársins 2022. Þetta vel heppnaða verkefni er mjög mikilvægt fyrir okkar samfélag á Snæfellsnesi og með opnun hússins var löngu tímabærum áfanga náð í þjónustu við fólk með fötlun.
Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð en verulega tók á vegna COVID-19, bæði varð kostnaður meiri en gert var ráð fyrir og jafnframt minnkuðu tekjur. Sú staðreynd að bæjarsjóður stóð vel mun hjálpa okkur í gegnum þessa erfiðleika. Í upphafi árs var get ráð fyrir lántöku að upphæð 200 milljónir en staðreyndin var sú að teknar voru 220 milljónir að láni á árinu. Rétt er þó að geta þess að hluti af aukinni lántöku var notaður til að greiða upp óhagstæð eldri lán. Þrátt fyrir þetta hækkuðu langtímalán ekki að raungildi.
Íþróttastarfið í sveitarfélaginu einkenndist nokkuð af þeirri stöðu sem COVID-19 setti á samfélagið. Oft hefur okkur gengið betur á sviði íþróttanna. Þó er unga fólkið okkar að standa sig afar vel og við eigum nokkrar konur í landsliðum Íslands sem ég er afar stoltur af. Jákvæð þótti mér fersk innkoma Reynis á Hellissandi í meistaraflokki karla og hlakka ég til að sjá hvernig árið í ár muni þróast hjá þeim.
Nú í haust tóku sveitarstjórnir Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar þá ákvörðun að fara í viðræður um sameiningu sveitarfélaganna sem leitt hefur til þess að ákveðið hefur verið að ganga til kosninga um sameiningu sveitarfélaganna 19. febrúar 2022. Ef af sameiningu verður mun það efla samfélagið og þá sérstaklega á sunnanverðu Nesinu sem er afar jákvætt til framtíðar litið. Þar að auki standa sveitarfélögin bæði fjárhagslega vel og með sameiningunni munu koma framlög frá Jöfnunarsjóði líklega tæpar 600 miljónir króna sem nýtast munu vel til að styrkja svæðið enn frekar.
Árið var mér sjálfum gott þó að sjálfsögðu hafi COVID spilað stórt hlutverk þar eins og hjá öðrum. Kristinn Jökull sonur minn útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands með góðum árangri og hóf nám við Háskóla Íslands í haust. Ég sjálfur tók þá ákvörðun að sækja landvarðanámskeið í nokkrar vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Hafði ég mikla ánægju af því og nú er ég komin með réttindi til að verða landvörður sem ég get vonandi nýtt mér síðar. Ég naut þess að hreyfa mig, fór m.a. að eldstöðunum við Geldingadal sem var einstök upplifun. Naut þess með góðum vinum að sinna kindunum mínum, fór nokkrar smalaferðir sem ég hef óskaplega gaman af og í raun er hver og ein ferð einstakt ævintýri og upplifun. Ég naut líka samvista með fjölskyldunni á árinu og „dró“ Helga mín mig reglulega á golfvöllinn sem mér þótti nú ekki leiðinlegt.
Kosið verður til sveitarstjórna í vor og miklu skiptir að við fáum gott fólk til að bjóða sig fram til þeirra starfa. Það að fólk gefi kost á sér er ekki sjálfsagt og tek ég ofan fyrir öllum þeim sem það gera. Það er ekki auðvelt að inna þessi verk af hendi og stundum verða þeir sem í sveitarstjórn sitja á hverjum tíma fyrir afar ósanngjarnri gagnrýni þó að gagnrýni geti að sjálfsögðu líka verið uppbyggileg og til gagns. Það að við höfum ekki sömu sýn á hlutina er eðlilegt og aumt væri það ef ekki væru skiptar skoðanir um einstök mál. Við eigum hins vegar að virða skoðanir hvers annars og ekki gera fólki upp annarleg sjónarmið ef okkar skoðanir falla ekki að skoðunum annarra. Það er enda þannig að markmið okkar allra er að gera samfélagið okkar enn betra á morgun en það er í dag.
Samstarf innan bæjarstjórnar var afar gott eins og undanfarin ár og mikil samstaða um þau stóru verkefni sem fyrir lágu á árinu. Starfsmenn Snæfellsbæjar sig hafa staðið sig eins og áður sagði með miklum ágætum í erfiðum aðstæðum á árinu og erum við heppin að hafa á að skipa afar hæfum starfsmönnum.
Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs árs og þakka samstarfið á liðnum árum. Megi árið 2022 verða okkur öllum farsælt.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri