Vinabæjarheimsókn til Vestmanna
Nú á haustdögum lögðu 5 af 7 bæjarfulltrúum Snæfellsbæjar, ásamt mökum, af stað í vinabæjarheimsókn til Vestmanna í Færeyjum en vinabæjarsamstarf á milli Vestmanna og Snæfellsbæjar hófst fyrir 20 árum.
Vestmanna er bær á Straumey sem er ein af 18 eyjum Færeyja, með um 1200 íbúa, en einungis 2 eyjar í eyjaklasanum eru ekki í byggð. Færeyjar, eða fjáreyjar, eru kenndar við sauðfé, enda mun meira af sauðfé í Færeyjum en mannfólki og alls staðar sáum við kindur hvert sem við fórum okkur til mikillar gleði.
Við komuna til Vestmanna var tekið á móti okkur á bæjarskrifstofunni og þaðan var svo haldið beint með rútu í skoðunarferð. Margir fallegir staðir voru heimsóttir og einstaklega gaman að koma á þá staði sem “færeyskir Ólsarar” komu frá, eins og t.d. Ríkharð Jónsson sem var frá Saksun, sem er orðinn einn vinsælasti ferðamannastaður Færeyja enda umlukin stórkostlegri náttúrufegurð hvert sem litið er.Það var einstaklega gaman að koma til Tjornevikur þar sem tíminn hefur nánast staðið í stað. Þar var okkur boðið í kaffi og vöfflur í heimahúsi, þar sem húsráðandinn var alinn upp í 11 manna fjölskyldu um miðja síðustu öld, í svo ótrúlega litlu húsi þar sem lofthæðin var ekki mikil en hlýjan og notalegheitin einstök og ætluðum við ekki að hafa okkur í að standa upp úr sófunum og halda áfram ferðinni. Við þurftum síðan reyndar að breyta ferðaplaninu og stytta útsýnisferðina sökum slæms skyggnis og mikillar rigningar.
Okkur var svo boðið til glæsilegs kvöldverðar í húsakynnum heilsugæslustöðvarinnar í Vestmanna um kvöldið, en farið var snemma í háttinn þar sem dagskrá morgundagsins var þétt skipuð. Morguninn eftir var haldið snemma af stað í siglingu um Vestmannabjörgin. Einnig stóð til að sigla með okkur til Mykiness, sem er vestust Færeyja og aðeins 11km2 að stærð með einungis 10 fasta íbúa í dag, en við komumst því miður ekki sökum mikillar ölduhæðar og vinda. En þvílík fegurð að sigla um Vestmannabjörgin og horfa upp og sjá kindurnar á beit í snarbröttum hlíðum alls staðar fyrir ofan okkur.
En trúið mér, í þessari ferð komu svokallaðar sjóveikistöflur að góðum notum, allavega fyrir sum okkar! Að siglingu lokinni héldum við aftur af stað og skoðuðum fleiri fallega staði meðal annars Kirkjubæ sem er lítið þorp á vestan-verðri Straumey en þar er að finna fornt biskupssetur frá miðöldum og því Kirkjubær einn helsti sögustaður eyjanna.
Að lokum héldum við til höfuðstaðarins Þórshafnar, eða Havn eins og heimamenn segja, þar sem við gistum í 2 nætur og héldum áfram að skoða okkur um. Við fengum höfðinglegar móttökur hjá frændum okkar Færeyingum og eftir að hafa meðal annars bragðað á skerpikjöti, sem er vindþurrkað kindakjöt þurrkað í hjalli í 5-9 mánuði eða jafnvel í heilt ár, og rastakjöti sem er einnig kindakjöt en látið hanga í mun styttri tíma en skerpikjötið, gjarnan um tvo mánuði, héldum við heim á leið með gleði í hjarta og ögn meiri jarðtengingu eftir samvistir við vini okkar í Vestmanna.Í heimsóknum sem þessum hefur tíðkast að færa hvoru bæjarfélagi gjafir í þakklætisskyni fyrir góðar móttökur. Færðum við Vestmanna fallega mynd af Snæfellsjökli eftir Vigdísi Bjarnadóttur og bæjarfulltrúum færðum við útskorin trébretti eftir Vigfús Vigfússon. Vöktu þessar gjafir mikla lukku enda bæði Vigdís og Vigfús einstakir listamenn sem við erum stolt af að eiga og okkur þótti við hæfi að færa list þeirra út fyrir landsteinana. Bæjarstjórn Vestmanna færði okkur málverk af Mykines þar sem við komumst ekki þangað sökum brælu og færðu þau okkur það á málverki í staðinn.
Vinabæjarsambönd sem þessi eru hverju bæjarfélagi dýrmæt. Þau auka víðsýni og mynda sterk tengsl um ókomin ár sem okkur ber að hlúa að og gera sýnilegri bæjarbúum og ekki síst skólabörnum.
Fyrir hönd bæjarstjórnar Snæfellsbæjar,
Júníana Björg Óttarsdóttir