Félög og félagasamtök geta hlotið styrk til gróðursetningar

Snæfellsbær bendir íbúum á verkefnið Vorvið. Um er að ræða styrki til skóg­rækt­ar á veg­um fé­laga og fé­laga­sam­taka og vert að taka fram að hvers kyns félög og samtök geta sótt um styrk. Þátttaka einskorðast ekki við skógræktarfélög. Verk­efnið er hluti af aðgerðaáætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar í lofts­lags­mál­um.

Sem hluti af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar er Skógræktinni falið að efla tengsl við og styðja félagasamtök með sérstöku verkefni. Verkefnið Vorviður nefnist þetta verkefni sem á að vinna að bættri landnýtingu í þágu loftslags.

Markmið verkefnisins er að efla samstarf Skógræktarinnar og ýmissa félaga um allt land í því augnamiði að gefa félögum kost á að binda kolefni með eigin skógrækt. Félög sem nota land sem þegar er á skipulögðu skógræktarlandi njóta forgangs.

Að því sögðu hefur Snæfellsbær ráðstafað landsvæði nærri Svöðufossi til  „samviskuskógarins“ svokallaða sem bæjarstjórn samþykkti að koma upp í sveitarfélaginu. Þar munu íbúar í Snæfellsbæ sem vilja minnka eða jafna kolefnisfótspor sín geta gróðursett tré á skipulögðu svæði og þannig stuðlað að fallegri bæ og bættri umhverfismenningu.

Stuðningurinn felst í endurgreiðslu kostnaðar við plöntukaup eingöngu. Félög sækja um styrkinn til Skógræktarinnar sem annast umsýslu þessa verkefnis og gerður er samningur við Skógræktina.

Umsóknarfrestur fyrir verkefni árið 2021 er til 15. janúar 2021. Ljósmynd af vef Skógræktarinnar af áhugafólki við gróðursetningu. Pétur Halldórsson.