Geymslusvæði við Rif

Á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar þann 3. febrúar 2021 voru samþykktar reglur fyrir geymslusvæði í grjótnámu við Rif. Á svæðinu hafa verið skipulagðir reitir þar sem íbúum sveitarfélagsins stendur til boða að vera með lausafjármuni til lengri eða skemmri tíma.

Stöðuleyfi á geymslusvæði er mun hagstæðari kostur en stöðuleyfi í byggð. Sótt er um stöðuleyfi á geymslusvæði með sama eyðublaði og önnur stöðuleyfi.

Í grein 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segir: „Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna:

  1. Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí.
  2. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld.

Umsókn um stöðuleyfi skal vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og skal fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Í umsókn skal gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna.“ Hægt er að nálgast gjaldskrá, umsóknareyðublöð fyrir almenn stöðuleyfi og reglur geymslusvæðis á viðeigandi hlekkjum og á bæjarskrifstofu Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, 360 Hellissandi.

Lóðarhafar og landeigendur sem eru með lausafjármuni á lóðum sínum, án gilds stöðuleyfis, munu á næstunni fá áskorun um að bregðast við.