Kynning frá íbúafundi vegna kynningar á hönnun útivistar- og göngusvæða

Á opnum íbúafundi í húsnæði Grunnskóla Snæfellsbæjar á Hellissandi þann 30. janúar 2020 voru kynntar tillögur að hönnun útivistar- og göngusvæða á Hellissandi og nærumhverfi.

Elízabet Guðný, landslagsarkitekt hjá Landslag, kynnti tillögur að heildarskipulagi svæðisins sem felur m.a. í sér að núverandi útivistarstígur milli Ólafsvíkur, Rifs og Hellissands verði framlengdur, tvær hugmyndir að hringleið sem tengir útivistarstíg frá strandlínu inn í Hraunskarð og grænum tengingum frá Viðvík í vestri að Tröð og norður með Höskuldsá í gegnum miðju bæjarins til sjávar. Vegir, stígar og trjágróður verði þannig skipulagðir sem eitt svæði með skjólmyndun í huga og fjölgun áningastaða íbúum til bóta.

Fjölmennt var á fundinum og sköpuðust góðar umræður að lokinni kynningu á fyrirliggjandi hönnun. Margar góðar hugmyndir og tillögur bárust frá íbúum sem nýtast Landslagi í áframhaldandi vinnu.

Í viðhengi má sjá þær hugmyndir sem kynntar voru á fundinum. Rétt er að taka fram að þetta er tillaga að heildarskipulagi hönnunar, ekki lokahönnun, en gefur þó góða mynd af þeirri uppbyggingu sem fram undan er á Hellissandi.

Viðhengi: