Viðbragðsáætlun Snæfellsbæjar vegna COVID-19 og upplýsingar til íbúa

Snæfellsbær hefur gripið til ráðstafana til að bregðast við COVID-19 faraldrinum sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Enda þótt ekkert smit hafi enn verið staðfest í Snæfellsbæ er mikilvægt að hafa varann á og standa vörð um mikilvæga starfsemi og þjónustu bæjarins, einkum við fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma.

Stjórnendur bæjarins vinna að viðbragðsáætlunum í samráði við almannavarnir og landlækni. Fylgst er vel með öllum nýjustu tíðindum og ábendingum sérfræðinga og er staðan metin daglega og þess gætt að nýjustu upplýsingar um stig faraldursins skili sér til starfsmanna og íbúa sveitarfélagins.

Líkt og áður hefur verið tilkynnt er Dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar lokað fyrir heimsóknum gesta þar til annað hefur verið tilkynnt. Var þetta ákveðið að höfðu samráði við sóttvarnalækni og landlækni eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir.

--

Minnt er á heimasíðu landlæknis, þar sem nálgast má allar helstu upplýsingar um COVID-19. Almannavarnir hafa einnig gefið út ráðleggingar um mannamót með tilliti til faraldursins sem allir eru hvattir til að kynna sér og Snæfellsbær lítur að sjálfsögðu til við ákvarðanatöku og t.d. hefur árleg árshátíð starfsmanna Snæfellsbæjar sem átti að vera haldin síðar í mánuðinum verið blásin af.