Auglýsing um breytingu aðalskipulags og nýtt deiliskipulag á Hellissandi og í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli

Auglýsing um breytingu aðalskipulags og nýtt deiliskipulag á Hellissandi og í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, Snæfellsbæ Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 19. janúar 2023 að auglýsa tillögur að breytingum á aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015 - 2031, samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Einnig var samþykkt auglýsa deiliskipulag á báðum svæðum í samræmi við 1. mgr. 41. gr skipulagslaga  samhliða breytingum aðalskipulags.Tillaga að breytingu aðalskipulags og nýtt deiliskipulag fyrir Dritvíkurveg og Djúpalónssand í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli

Aðdragandi breytingar aðalskipulags og nýs deiliskipulags er aukin umferð um svæðið og vaxandi þörf yfir bílastæði og þjónustuhús.

Í aðalskipulagi er AF-U-7 afþreyingar-og ferðamannasvæði stækkað úr um 70.000 m2 í um 90.000 m2 og lögun er breytt og verður eftir breytingu að auknu leyti neðan Útnesvegar. Einnig er gerð grein fyrir stækkun þjóðgarðsins sem hefur þegar átt sér stað. Vegna stækkunar þjóðgarðsins minnkar svæði 223 á náttúruminjaskrá. 

Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir nýjum áningarstað norðvestan við gatnamót Dritvíkurvegar og Útnesvegar, til að minnka álag við Djúpalónssand. Rútustæði verða einnig í námu austan Útnesvegar. Í sérákvæðum kemur fram að reisa má einnar hæðar þjónustuhús, hámarkshæð byggingar 5.0 m frá gólfkóta.

Svæðið er innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og eru allar framkvæmdir háðar samþykki Umhverfisstofnunar. Fylgigögn:

Tillaga að breytingu aðalskipulags og nýtt deiliskipulag fyrir Krossavíkurböðin á Hellissandi

Aðdragandi breytingar aðalskipulags og nýs deiliskipulags er áhugi á að reisa og reka baðstað við Krossavík, en þar er vaxandi ferðamannastraumur. Fyrirhuguð mannvirki verði ofan gróðurbakka við ströndina, þar verði opin gönguleið og ekkert rask í  fjöru.

Á uppdrætti vegna breytingar aðalskipulags er bætt inn nýju svæði fyrir afþreyingar- og ferðamannasvæði AF-2, sem er um 2.500 m2, en þar var áður óbyggt svæði. Þar er fyrirhugað að gera baðstaðinn og auk þess er gert ráð fyrir bílastæði austar. Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir allt að 500 m2 byggingum og allt að 1.200 m2 útisvæði fyrir verönd og potta á svæði AF-2 og að bílastæði sem er um 200-250 m austan mannvirkja verði allt að 1.800 m2.

Svæðið er á svæði 223 á náttúruminjaskrá og eru framkvæmdir háðar samráði við Umhverfisstofnun.

Fylgigögn:

--

Tillögurnar liggja frammi í Ráðhúsi Snæfellsbæjar að Klettsbúð 4, 360 Hellissandi frá 26. janúar 2023 til 15. mars 2023 og hér á heimasíðu Snæfellsbæjar. Tillaga að breytingum aðalskipulags ásamt umhverfismatsskýrslum verða jafnframt til kynningar hjá Skipulagsstofnun, Borgartúni 7, Reykjavík.

Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast til skipulags- og byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar í síðasta lagi 15. mars 2022 í Ráðhús Snæfellsbæjar að Klettsbúð 4, 360 Snæfellsbæ eða á byggingarfulltrui@snb.is.